Team Liquid virðist fá taktinn til baka

ScreaM var funheitur eða „activated“ í gær
ScreaM var funheitur eða „activated“ í gær Skjáskot/Riot Games

Evrópska liðið Team Liquid vann sannfærandi sigur 2-0 gegn suðurameríska liðinu KRÜ Esports í gær. Ekki var við öðru að búast en Team Liquid var spáð yfirgnæfandi sigri og höfðu t.a.m. veðbankar gefið KRÜ Esports stuðulinn 1:6.

Team Liquid hafa verið að skila ágætri frammistöðu í Valorant síðastliðið ár og var því enginn beinlínis hissa þegar þeir unnu Evrópu, Mið-Austurlanda og Afríku undankeppnina til að komast inn á Masters Reykjavík. Það voru þó eflaust einhverjir hissa þegar þeir töpuðu sinni fyrstu viðureign á mótinu gegn óreynda norðurameríska liðinu Version1 og enduðu í neðri riðli. Það var því pressa á þeim að snúa blaðinu við og standa sig eins og fólk vænti til.

KRÜ Esports töpuðu einnig sinni fyrstu viðureign á mótinu gegn evrópska liðinu Fnatic, en Fnatic tapaði gegn Team Liquid í undankeppninni fyrir mótið, og var því ekki við öðru að búast en að þeir myndu einnig tapa gegn Team Liquid. Allt getur þó gerst og KRÜ höfðu sýnt af sér góða frammistöðu gegn brasilíska liðinu Sharks Esports í seinustu viðureign sinni.

ScreaM lét í sér heyra

Borðaval byrjaði hjá Team Liquid sem bannaði Icebox, eflaust vegna góðs árangurs KRÜ Esports gegn Sharks Esports í því borði. KRÜ hins vegar bönnuðu borðið Haven, þrátt fyrir að Team Liquid hafi tapað því borði 4-13 gegn Version1 í fyrri viðureign sinni. Team Liquid valdi í kjölfarið borðið Ascent en KRÜ Esports borðið Split. Lokaborð, ef til þess kæmi, yrði þá borðið Bind.

Fyrsti leikur viðureignarinnar var í borðinu Split og við tók vægast sagt blóðbað þar sem Team Liquid hreinlega rúlluðu upp KRÜ Esports. Adil „ScreaM“ Benrlitom átti þrusugóðan leik á útsendaranum (e. agent) Sage og náði einu svokölluðu „4k“, þar sem hann felldi fjóra mótherja einsamall í einni umferð, og þrjú 3k. Endaði leikurinn 13-2 fyrir Team Liquid í þessu borðavali KRÜ.

Seinni leikur viðureignarinnar lofaði því ekki góðu fyrir KRÜ Esports þar sem þeir fóru inn í borðaval Team Liquid, Ascent. ScreaM var aftur funheitur og náði þetta sinn einu 4k og heilum sex 2k. KRÜ börðust þó af hörku og var sigurinn ekki meiri en 13-9 fyrir Team Liquid. Það er því spurning hvort þeir þurfi að endurhugsa Ascent sem borðaval sitt í framtíðinni.

Með því er KRÜ Esports dottið af mótinu. Team Liquid mætir hins vegar brasilíska liðinu Team Vikings klukkan 17.30 í dag, en Team Vikings er komið í neðri riðil eftir tap sitt gegn Sentinels á miðvikudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka