Fnatic vísuðu Version1 útaf mótinu

Derke drífur sig í áttina að sprengjunni eftir að hafa …
Derke drífur sig í áttina að sprengjunni eftir að hafa fellt fimmta mótherjann, en sér að hann er orðinn of seinn Skjáskot/Riot Games

Evrópska liðið Fnatic vann viðureign sína gegn norðurameríska liðinu Version1 með nokkuð sannfærandi 2-0 sigri í gær. Var talið að viðureignin yrði nokkuð jöfn en bæði lið eru búin að standa sig ótrúlega vel á Masters Reykjavík mótinu í tölvuleiknum Valorant sem er í gangi í Laugardalshöll þessa mundina.

Á leið inn í viðureignina hefði mátt segja að Version1 væru að fara að vinna, a.m.k. leit það svoleiðis út á pappír. Ástæðan er sú að Version1 höfðu unnið Team Liquid í annarri viðureign sinni á mótinu á meðan Fnatic höfðu tapað gegn Team Liquid í undankeppni sinni fyrir mótið.

Fnatic voru hins vegar búnir að sýna styrkleika sinn á mótinu, þá helst með því að keppa á nokkuð jöfnum grundvelli gegn norðurameríska liðinu Sentinels, en Sentinels unnu Version1 nokkuð örugglega í undankeppni sinni fyrir mótið.

Fyrst jafnt, svo ekki

Borðaval liðanna var sem svo: Version1 bönnuðu Bind og völdu Ascent. Fnatic bönnuðu Split og völdu Icebox. Keppt yrði til úrslita í Haven ef til þriðja borðs kæmi.

Leikurinn byrjaði í borðavali Fnatic, Icebox, og var eins jafn og við mátti búast. Staðan í hálfleik var 6-6 og þegar seinni helmingur kláraðist var haldið í framlengingu, staðan 12-12. Fnatic náðu þó strax tveimur umferðum í röð í fyrstu framlengingu og lokuðu leiknum þannig. Upp úr stóð að leikmaður Fnatic, Nikita “Derke” Sirmitev náði ace, þ.e.a.s. hann felldi alla mótherja sína einsamall, í 20. umferð en þrátt fyrir það unnu Version1 umferðina.

Seinni leikur liðanna var heldur ójafnari og er hann beinlínis ástæðan fyrir því að sigur Fnatic getur talist hafa verið nokkuð öruggur. Endaði hann 13-6 Fnatic í vil þrátt fyrir að vera í kortavali Version1, Ascent, og voru þessar 6 umferðir sem Version1 náðu dreifðar og lítið til að hrópa húrra fyrir.

Með þessum sigri tryggði Fnatic sér áframhaldandi göngu á mótinu og keppir næst við Team Liquid á morgun klukkan 17. Version1 fara hins vegar heim en þó vonandi með það í huga að þeir stóðu sig framar vonum flestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka