Evrópska liðið Team Liquid sigraði brasilíska liðið Team Vikings 2-0 í annarri viðureign gærdagsins á Masters Reykjavík mótinu í tölvuleiknum Valorant sem er í gangi í Laugardalshöll. Spáðu bæði aðdáendur og sérfræðingar í útsendingu sigri Team Liquid áður en viðureignin hófst.
Þrátt fyrir að Team Vikings hafi komist lengra í efri riðli á mótinu en Team Liquid virtist það ekki hafa áhrif á spár manna, en segja má að Liquid hafi á ákveðinn hátt samt verið að standa sig betur á mótinu almennt. Það mátti þó ekki afskrifa Brasilíumennina strax en þeir hafa sýnt að þeir geta átt sínar stundir.
Viðureignin byrjaði á því að Team Liquid bönnuðu borðið Icebox. Team Vikings bönnuðu í kjölfarið borðið Split en Liquid höfðu spilað það með ágætis árangri í fyrri viðureignum sínum á mótinu. Vikings og Liquid völdu svo borðin Ascent og Haven hvort fyrir sig og varð því borðið Bind eftir sem þriðja borð.
Fyrri leikur liðanna átti sér stað í borðinu Ascent og hefði mátt segja að Team Vikings hefðu ákveðna yfirhönd þar sem þeir höfðu meiri upplýsingar um leikatriði Team Liquid í því borði en öfugt. Leikmaður Team Liquid, Elias „Jamppi“ Olkkonen, átti hins vegar stórleik og það strax, en hann opnaði leikinn með glæsilegu 4k í fyrstu umferð og svo ace í annarri umferð. Vikings áttu fá svör og leikurinn endaði með 13-8 sigri Liquid.
Team Liquid ýttu þó ekkert á bremsuna í seinni leik viðureignarinnar og er skemmst frá því að segja að Haven fór 13-5 fyrir Liquid. Var þar með lokastaða viðureignarinnar 2-0 þeim í vil og endaði Jamppi með glæsilegar 23 fellur umfram sínar eigin gegnum viðureignina og því með rúmlega 2 í K/D. Með því tryggðu Team Liquid sér viðureign gegn Fnatic í dag klukkan 17 en liðin tvö mættust seinast í undankeppni mótsins þar sem Liquid fór með sigur. Team Vikings fara hins vegar heim og draumar brasilískra aðdáenda með þeim.