Staðan á Masters Reykjavík – dagur 6

Valorant
Valorant Grafík/Riot Games

Evrópsku liðin tvö, Fnatic og Team Liquid, héldu áfram að sýna góðu hliðar sínar í neðri riðli í gær þegar þau unnu annars vegar norðurameríska liðið Version1 og hins vegar brasilíska liðið Team Vikings. Í efri riðli mættust norðurameríska liðið Sentinels og suðurkóreska NUTURN Gaming en NUTURN voru fljótlega sendir niður í neðri riðil með 2-0 tapi. 

Masters Reykjavík mótið í tölvu­leikn­um Val­or­ant sem fer fram hér á landi í Laug­ar­dals­höll er nú á sínum sjötta degi og einungis fjögur lið eru eftir. Þrjú þeirra eru hins vegar í neðri riðli og berjast því fyrir veru sinni á mótinu, og tækifæri til að komast í úrslit, í tveimur viðureignum í dag.

Þrír sannfærandi sigrar

Fyrstu tvær viðureignir gærdagsins voru annars vegar evrópska liðið Fnatic gegn norðurameríska liðinu Version1 og hins vegar evrópska liðið Team Liquid gegn brasilíska liðinu Team Vikings. Evrópsku liðin mættu ákveðin til leiks og sást það greinilega að þau ætluðu sér ekki að tapa aftur á mótinu. Enduðu báðar viðureignir með sannfærandi 2-0 sigri evrópsku liðanna, þótt Version1 hafi vissulega látið Fnatic vinna örlítið meira fyrir sínum sigri.

Þriðja viðureign dagsins lofaði því að vera stjörnuviðureign en þar tókust á norðurameríska liðið Sentinels og suðurkóreska liðið NUTURN Gaming. Í stuttu máli þá brast það loforð og enduðu Sentinels á því að taka viðureignina nokkuð auðveldlega 2-0.

Staðan núna

Með sigri Sentinels á NUTURN Gaming er Sentinels nú komið í úrslit á mótinu. NUTURN Gaming er hins vegar komið í undanúrslit í neðri riðli. Í neðri riðli eru einnig liðin Fnatic og Team Liquid, en evrópsku liðin tvö fá nú annað tækifæri til að útkljá það hvort liðið er betra og fær að halda áfram og keppa gegn NUTURN í undanúrslitum.

Næsta viðureign mótsins er fyrrnefnd viðureign Fnatic og Team Liquid klukkan 17.30 í dag. Sigurvegari þeirra viðureignar mun svo mæta NUTURN Gaming í undanúrslitum í neðri riðli klukkan 19:30 í kvöld. Að lokum mun svo sigurvegari þeirrar viðureignar mun fá að mæta Sentinels í úrslitaleik mótsins á sunnudaginn klukkan 17.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka