Norðurameríska liðið Sentinels tryggði sér sæti í úrslitaviðureign Masters Reykjavík-mótsins í tölvuleiknum Valorant sem á sér stað í Laugardalshöll með 2-0 sigri gegn suðurkóreska liðinu NUTURN Gaming í gær. Eins og venjulega hafði Sentinels verið spáð sigri en flestir voru þó spenntir að sjá hvernig NUTURN myndu standa sig.
Sentinels hafa enn ekki tapað leik á mótinu og var því ekki talið líklegt að þeir myndu tapa viðureigninni þegar hún hófst í gær. NUTURN Gaming hafa aftur á móti átt í basli með sínar viðureignir og hafa almennt sýnt slaka spilamennsku á mótinu hingað til. Í því felst þó að ef þeir myndu mæta með sinn besta leik gegn Sentinels gæti allt gerst.
Segja má að Sentinels hafi byrjað kortavalið á hrokafullan hátt þegar þeir bönnuðu borðið Ascent og hleyptu þar með borðinu Bind í gegn, en Bind getur hugsanlega talist besta borð NUTURN Gaming. NUTURN hins vegar gerðu þau mistök að banna ekki borðið Haven heldur bönnuðu borðið Icebox eins og venjulega og það virðist því sem þeir ætli ekkert að læra af fyrri frammistöðu sinni á mótinu. Sentinels völdu Haven í kjölfarið og NUTURN Bind. Split sat eftir sem lokaborð.
Viðureignin byrjaði í borðavali NUTURN Gaming, Bind, og þurfti NUTURN því virkilega að brjóta þá bölvun sína að tapa alltaf fyrsta leik á mótinu. Enn og aftur mættu þeir hins vegar með arfaslaka frammistöðu þar sem mikið var um augljós mistök og vafasamar ákvarðanir. Sentinels hins vegar spilaði ágætisleik og endaði viðureignin 13-5 fyrir liðinu í því sem átti að heita besta borð NUTURN.
Það má því segja að Sentinels hafi slegið NUTURN umsvifalausu rothöggi og að viðureignin væri hreinlega búin þegar seinni leikur hennar hófst, en NUTURN Gaming hefur staðið sig vægast sagt hræðilega í borðinu Haven á mótinu hingað til. Leikur þeirra gegn Sentinels var engin undantekning og lokuðu Sentinels leiknum með sannfærandi 13-4 sigri.
Sentinels eru nú komnir í úrslit á mótinu og fer sú viðureign fram á morgun klukkan 17. NUTURN Gaming eru þó ekki enn dottnir úr mótinu en þeir eiga viðureign í undanúrslitum í neðri riðli klukkan 19:30 í kvöld og mæta þar öðru hvoru af evrópsku liðunum Fnatic eða Team Liquid.