Staðan á Masters Reykjavík – lokadagur

Kynningarmynd fyrir VALORANT Champions Tour 2021: Stage 2 Masters - …
Kynningarmynd fyrir VALORANT Champions Tour 2021: Stage 2 Masters - Reykjavík Grafík/Riot Games

Evrópsku liðin tvö, Fnatic og Team Liquid, mættust í hörkuspennandi viðureign til að ákveða hvort þeirra kæmist í undanúrslit í neðri riðli í gær. Fnatic hafði betur og fór því áfram í undanúrslit þar sem liðið mætti samstundis suðurkóreska liðinu NUTURN Gaming. Eftir langan og strangan slag stóðu Fnatic uppi sem sigurvegarar og mæta því norðurameríska liðinu Sentinels í úrslitum í dag klukkan 17.

Liðin er vika frá því að Masters Reykjavík mótið í tölvuleiknum Valorant sem á sér stað í Laugardalshöll hóf göngu sína. Í dag er seinasti dagur mótsins en í kvöld mætast norðurameríska liðið Sentinels og evrópska liðið Fnatic í úrslitum. Liðin hafa áður mæst á mótinu þar sem Sentinels unnu 2-0 en samt sem áður var umtalað hversu vel Fnatic höfðu staðið sig gegn þeim. Það er því ekki útilokað að Fnatic geti stolið sigrinum í kvöld.

Fnatic fá annað tækifæri gegn Sentinels

Fyrsta viðureign gærdagsins var milli evrópsku liðanna Fnatic og Team Liquid. Liquid höfðu unnið Fnatic í undankeppni mótsins og var því áhugavert að sjá hvernig fara myndi í þetta skiptið. Fnatic mættu hins vegar hörkuákveðnir til leiks og gáfu Team Liquid ekki einn leik, lokastaða 2-0 fyrir Fnatic.

Fnatic var þar með komið í undanúrslit þar sem þeir mættu NUTURN Gaming einungis u.þ.b. hálftíma eftir að viðureign þeirra gegn Team Liquid lauk. Ekki var þó að sjá neina þreytu hjá Fnatic mönnum og slógu þeir NUTURN út eftir nokkuð jafna viðureign. Með því eru Fnatic komnir í úrslit gegn Sentinels og fá því annað tækifæri til að sýna hvað í þeim býr.

Dagskráin í dag

Viðureign Fnatic og Sentinels hefst sem áður segir klukkan 17 í dag. Í þetta sinn verður spilað upp í þrjá leiki í stað tveggja eins og hefur verið á mótinu hingað til. Nú er bara að sjá hvort að Fnatic hafi fundið það sem vantaði uppá í seinustu viðureign sinni gegn Sentinels. Sentinels þurfa hins vegar að passa að verða ekki of hrokafullir en þótt þeir hafi ekki tapað einum einasta leik á mótinu hingað til þá létu Fnatic þá vissulega vinna fyrir sigrinum þegar liðin hittust seinast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka