Tölvuleikjaspilarar „voru sérstök tegund af fólki“

Theódór Árni og Guðmundur Kári.
Theódór Árni og Guðmundur Kári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við þurftum bara að gjöra svo vel að læra á þetta, tengja þetta saman og stilla.“

Þannig kemst Theódór Árni Hansson að orði um LAN-viðburði sem haldnir voru á Íslandi fyrir aldamótin.

Theódór Árni „Freddy“ og Guðmundur Kári Ágústsson „GarFielD“ komu af stað árlegu LANi í framhaldsskólanum við Ármúla, tóku þátt í nokkrum tölvuleikjamótum Skjálfta og hafa báðir mikla reynslu af tölvu- og tölvuleikjaheiminum.

Hengdu plaköt á veggi skólans

Þeir kynntust í skóla en urðu að góðum vinum í gegnum tölvuleikjaspilun. Segja má að þeir hafi komið af stað byltingu í FÁ þegar þeir byrjuðu LANið. Félagarnir hengdu á veggi plaköt til auglýsinga og létu orðið berast. Gekk það vel og jafnvel löngu eftir útskrift fréttu þeir af því að LANið væri enn haldið í skólanum.

Þeir segjast báðir hafa upplifað mikla fordóma á þeim tíma í garð „nördanna“ eða þeirra sem spiluðu tölvuleiki.

„Þeir komu með vindsængur, svefnpoka og tölvurnar sínar.“
„Þeir komu með vindsængur, svefnpoka og tölvurnar sínar.“ mbl.is/Golli

„Ef maður horfir á gamlar bíómyndir eru nördar mjög asnalegir og með risagleraugu, penna í brjóstvasanum á skyrtunni. Þetta var ímyndin sem fólk hafði af nördum. Console-tölvur eru ekki komnar, það er ekki Playstation-vél eða Xbox á hverju heimili. Þeir sem spiluðu tölvuleiki voru sérstök tegund af fólki. Það var ímyndin sem fólk hafði. Í dag spila allir tölvuleiki.

Mig langar að segja að við höfum þurft að vera hugrakkir til að standa með okkar sannfæringu og ást á tölvuleikjum,“ segir Theódór og bætir Guðmundur við að margir hverjir sem þeir kynntust á tölvuleikjamótinu Skjálfta séu í dag framkvæmdastjórar, tónlistarmenn, frumkvöðlar, tölvusérfræðingar, nýsköpunarmenn og verkefnastjórar úti um land allt.

Tengslanetið þandist út á Skjálfta

Guðmundur er enn í sambandi við einstaklinga úr tengslanetinu sem hann myndaði á Skjálfta og segir það hafa borgað sig mörghundruðfalt að hafa mætt á mótin. Þeir eignuðust báðir marga vini þar og skemmtu sér vel.

„Maður eignast vini fyrir lífstíð,“ segir Guðmundur.

Það var ekki auðvelt að halda LAN á þessum tímum vegna þess hve vanþróað internetið var miðað við hvernig það er í dag. Þurfti maður þræða allar tölvurnar saman með kapli, eins og jólaseríu sem síðan var tengd við router eða switch.

Guðmundur og Theódór í Skjálftabolunum sínum.
Guðmundur og Theódór í Skjálftabolunum sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spilaði leikinn í annarri tölvu

Vegna þessa gat maður orðið vitni að alls kyns furðulegum atvikum og má nefna að eitt skiptið hafði Theódór verið að flytja skrár á milli tölva hjá öðrum einstakling, síðan kveikt á leiknum Action Quake.

Leikurinn var mjög hægur og virkaði ekki sem skyldi, þegar hann fer að skoða vandamálið nánar heyrir hann í félaga sínum kvarta undan því að tölvan hans sé í klessu. Þá hafði Theódór opnað leikinn í gegnum tölvu félaga síns að skráarflutningum loknum.

Hneyksli á Skjálfta

Báðir eiga þeir margar minningar frá Skjálfta og nefnir Guðmundur meðal annars skiptið þegar hann spilaði á móti Skjálftameistara í fyrstu persónu skotleiknum Action Quake og tapaði fyrir honum með eitt mínus stig gegn fimmtíu stigum.

Guðmundur hafði fengið mínusstig vegna þess að hann hoppaði og mótspilari skaut hann út af borðinu, þá telst það sem sjálfsmorð. 

Skráarflutningar tíðkuðust mikið á Skjálfta, þar gat fólk nálgast t.d. tónlist hjá hvert öðru sem tæki annars langan tíma að hala niður af netinu. Eins má nefna uppákomu varðandi miðlana IRC og MSN sem voru vinsælir á þessum tíma. Þeir miðlar vistuðu öll samtöl í tölvuna og höfðu sumir gefið sér bessaleyfi í miðjum skráarflutningum að kíkja á þessi viðkvæmu gögn. Upp komu mörg viðkvæm samtöl og viðkvæmar skrár sem ollu hneyksli á Skjálfta.

„Þú setur saman 500 plús manneskjur undir eitt þak sem hafa öll svipuð áhugamál – ekki á tónleikum svo fólk getur talað saman. Þú kynnist hundruðum einstaklinga úti um allt Ísland. Krakkar voru að koma í rútum frá Akureyri og gistu á Skjálfta, þeir þurftu að koma með leyfisbréf frá foreldrum sínum,“ segir Guðmundur.

„Þeir komu með vindsængur, svefnpoka og tölvurnar sínar – og tvö sett af fötum af því mömmur þeirra heimtuðu það og svo bjuggu þeir bara í húsinu í nokkra daga. Yfir heila helgi af því það var ekkert internet þar sem maður gat hlammað sér online og spilað.“

Fjöldi ungmenna mætti á Skjálfta til að spila við aðra.
Fjöldi ungmenna mætti á Skjálfta til að spila við aðra. mbl.is/Golli

Hreysti leikur hlutverk

Þeir eru sammála um að líkamleg hreysti sé mikilvæg undirstaða fyrir rafíþróttir. Guðmundur nefndi dæmi um einstakling sem hann horfði á keppa í rafíþróttum sem tók sig til og hljóp á staðnum í 30 sekúndur meðan pása stóð yfir. Keppandinn hafði nefnilega lækkað í púlsi og hreyfði sig þess vegna. Að pásu lokinni settist hann aftur á stólinn sinn og náði yfirhöndinni.

Síðustu árin hefur enda verið sífellt sýnilegra hversu stóran þátt hreysti spilar í rafíþróttum sem og öðrum íþróttum.

Og ef farið er aftur til baka var til að mynda nánast engin drykkja á Skjálfta, enda hrapaðir þú í frammistöðu við einn bjór og vafalaust eftir fleiri.

Ágætisforvarnastarf

Segja má að rafíþróttir séu ágætisforvarnastarf. Theódór og Guðmundur byrjuðu til dæmis hvorugur að drekka fyrr en þeir voru vel komnir á fullorðinsár. Þeir voru einfaldlega uppteknir við rafíþróttir og nördaskap.

Í dag æfa þeir báðir aðrar íþróttir, Guðmundur er í hnefaleikum á meðan Theódór er í skylmingum og hefur m.a. farið utan að skylmast.

Þeir segja báðir einstaka upplifun að keppa í íþróttum sem slíkum og mannlegu tengslin vera afgerandi, að miklum hasar og „slagsmálum“ loknum er þakkað fyrir leikinn og jafnframt hælt fyrir góða frammistöðu.

„Krakkar sem eru í Fortnite í dag í barnaskóla hefðu …
„Krakkar sem eru í Fortnite í dag í barnaskóla hefðu gott af því að geta komið saman og hist,“ segir Theódór. mbl.is/Golli

„Back to basics“

„Ég vil sjá að við pössum að þetta sé meira félagslegt. Áður fyrr var þetta þannig að maður var að spila við einhvern og maður kynntist þeim. Þetta var ekki bara „Dangergirl“ sem var að drepa mig aftur og aftur, þetta var tveggja barna móðir. Þá fer rosalega mikið af pirringnum,“ segir Theódór um þróun rafíþrótta.

„Krakkar sem eru í Fortnite í dag í barnaskóla hefðu gott af því að geta komið saman og hist. Það verður miklu meiri tenging þannig. Ég hugsa að það sé leið til þess að þróa þetta áfram á jákvæðan hátt. Fara svolítið „back to basics“.“

Þeir segja mannlega þáttinn spila stóran þátt í öllum íþróttum og nefnir Guðmundur að hann vilji sjá fleiri LAN-viðburði, þar sem fólk kemur saman og spilar tölvuleiki í návist hvert annars.

„Þú gast ekkert verið fúll út í næsta mann eftir að hann sigraði, vegna þess að hann var við hliðina á þér! Þú varst bara með Nonna og hann var þar,“ segir Theódór og bætir við að þetta séu mannleg tengsl.

„Þetta er ekki bara óvinur. Þetta er manneskja og við eigum sama áhugamál.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert