Rafíþróttasamfélagið á Íslandi fær öflugan liðstyrk í nýjum 800 fermetra rafíþróttastað með góðri aðstöðu til æfinga, keppni og skemmtunar í rafíþróttum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Heimavelli eSports, þar sem segir að staðurinn verði opnaður að Hallveigarstíg 1 í miðbæ Reykjavíkur undir nafninu Heimavöllur.
Í tilkynningunni segir einnig að fyrsti rafíþróttabar landsins verði opnaður í hliðarsal húsnæðisins.
Að stofnun félagsins koma reynsluboltar úr atvinnulífinu, en stjórnarformaður félagsins er Guðjón Már Guðjónsson, eigandi og framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins OZ. Ásamt Guðjóni skipa stjórnina Melína Kolka Guðmundsdóttir, varaformaður Rafíþróttasamtaka Íslands og stofnandi Tölvuleikjasambands íslenska kvenna, Gestur Pétursson, forstjóri Veitna, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Tryggvi Freyr Elínarson, eigandi og þróunarstjóri Datera.
Af deildum færslum frá fyrrgreindum aðilum á samfélagsmiðlum að dæma er stefnt að því að opna í haust.
Framkvæmdastjóri Heimavallar er Gunnar Þór Sigurjónsson en hann er fyrrverandi upplýsingaöryggisstjóri hjá Samkeppniseftirlitinu ásamt því að vera rafíþróttaspilari til fjölda ára og virkur í fjölbreyttu félags- og ungmennastarfi.
„Það er mikill heiður að vera hluti af svona sterku teymi, sem ætlar að koma rafíþróttum á Íslandi upp á næsta stig. Atvinnulífið hér heima er byrjað að sjá tækifærin í þessum risastóra og sístækkandi markaði, enda flest stærstu vörumerki heims að tengja sig við rafíþróttir. Þess vegna skiptir okkur miklu máli að gera hlutina vel og í þéttu samstarfi við Rafíþróttasamtök Íslands og rafíþróttadeildir íþróttafélaganna. Markmið okkar er að vera hluti af og vinna með rafíþróttasamfélaginu á Íslandi að þessari spennandi þróun.“