Hvað er Twitch Rivals?

Twitch býður upp á hin ýmsu streymi og er ein …
Twitch býður upp á hin ýmsu streymi og er ein vinsælasta vefsíða í heimi. Skjáskot/twitch.tv

Twitch Rivals er rafíþróttamót sérstaklega fyrir það rafíþróttafólk sem streymir á streymisveitunni Twitch. Fyrsta Twitch Rivals rafíþróttamótið fór fram í San Diego árið 2019 á TwitchCon, sem er rafíþróttaráðstefna sem hýst er tvisvar á ári af Twitch. Þegar mótið var haldið á TwitchCon var það LANmót en hefur að mestu leyti farið fram á veraldarvefnum síðan þá.

Twitch Rivals auglýsir sig sem viðburð þar sem stærstu rafíþróttastreymarar koma saman og keppa á móti hvor öðrum í vinsælustu leikjunum sem streymt er frá á Twitch. Þessir leikir eru margir og ólíkir og ættu allir að geta fundið leik við sitt hæfi. Leikjasnið mótanna eru mismunandi eftir því hvaða leikur er spilaður hverju sinni.

Ógrynni af efni

Á áætlun Twitch Rivals árið 2021 eru fleiri en hundrað viðburðir sem spanna rúmlega tvöhundruð daga ársins. Öllum viðburðum mótsins er streymt á streymisveitunni Twitch og er hægt að sjá næstu viðburði á heimasíðu Twitch Rivals. Fyrir ákveðna viðburði er boðið upp á útsendingar á öðrum tungumálum en ensku og fara þær fram á öðrum rásum á Twitch.

Verðlaun fyrir sigur í mótunum eru mismunandi eftir hverju móti fyrir sig. Sem dæmi má nefna eru rúmlega 6 milljónir íslenskra króna í heildarverðlaun fyrir mót sem nú er í gangi í leiknum Valorant.

Auðvelt er að fylgjast með hvaða viðburðir eru næst á …
Auðvelt er að fylgjast með hvaða viðburðir eru næst á dagskrá á vefsíðu Twitch Rivals. Skjáskot/twitchrivals.com/schedule/

Hverjir geta tekið þátt?

Þeir sem streyma á Twitch og hafa hlotið Twitch Affiliate eða Twitch Partner titlana eiga séns á að fá boð í mótið. Þátttakendum ber skylt að streyma frá þeirra sjónarhorni og skrá sig inn á Discord rás mótsins til að eiga rétt á verðlaunum.

Heimsþekkt fyrirtæki meðal samstarfsaðila

Opinberir samstarfsaðilar Twitch Rivals eru Capital One, Verizon, Samsung, Old Spice, Doritos, State Farm, Intel, Logitech og Dunkin. Í nýlegri tilkynningu kemur fram að Pizza Hut mun aftur bætast í hóp opinberra samstarfsaðila Twitch Rivals í Norður-Ameríku.

Í kjölfar þessa samstarfs mun þáttaröðin Friday Night Bites vera endurvakin, en hún fór í loftið í fyrra í takmarkaðan tíma. Friday Night Bites er skemmtiefni sem snýst um rafíþróttir, þar sem frægir einstaklingar kíkja við og spila tölvuleiki ásamt því að borða pizzu. Einnig mun Pizza Hut verða styrktaraðili útsendinga á viðburðum Twitch Rivals, þar sem m.a. „M-V-Pizza“ titilinn fer til mikilvægustu leikmanna eða liða á hverjum viðburði.

Gætt sér á pizzu í Friday Night Bites streymi síðasta …
Gætt sér á pizzu í Friday Night Bites streymi síðasta föstudags. Skjáskot/twitch.tv/rivals

Hvað er á döfinni?

Eins og fram hefur komið hefur Twitch Rivals áætlað að halda fjöldann allann af mótum á árinu. Í dag og á morgun verður haldið tveggja daga mót í Valorant þar sem lögð er áhersla á að konur verða fyrirliðar liðanna sem keppa. Allar aðrar reglur þessa móts verða með eðlilegu sniði. Þann 1. júlí verða svo haldin tvö Fortnite mót, eitt á Spáni og annað í Norður-Ameríku, þar sem áhorfendur á Twitch rásum mótanna fá að kjósa um snið mótsins. Þann 2. júlí verður svo mót í Overcooked! All You Can Eat, en það mót er til styrktar góðgerðarmála. Það er því nóg um að vera.

Segja má að Twitch Rivals sé því fyrst og fremst jafn mismunandi og mótin eru mörg og það eina sem virðist vera hægt að ganga að sem vísu er að sumir af vinsælustu streymurum Twitch muni taka þátt. Sem fyrr segir er öllum viðburðum mótsins er streymt á streymisveitunni Twitch og er hægt að sjá næstu viðburði á heimasíðu Twitch Rivals.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert