Emelía Ósk Grétarsdóttir
Streymisþjónusta Netflix hefur áður ýjað að því að þeir muni í framtíðinni bjóða upp á tölvuleiki og gagnvirkni á streymisveitu sinni. Búist er við að það gangi upp á næsta ári og verði notendum að kostnaðarlausu.
Netflix er stærsta áskriftastreymisveita sjónvarpsefnis á heimsvísu, og stefnir fyrirtækið nú að því að bjóða áskrifendum upp á meira en sjónvarpsefni. Með því skrefi stígur Netflix inn í heim rafíþrótta og stækkar þannig viðskiptahóp sinn til muna, og setur þannig Netflix skrefi á undan helstu samkeppnisaðila.
Nýlega tilkynnti Netflix að fyrirtækið hefði ráðið Mike Verdu til fyrirtækisins sem varaforstjóra leikjaþróunardeildar. Verdu er fyrrverandi stjórnandi fyrirtækjanna Oculus, Electronic Arts og Zynga sem allt eru fyrirtæki sem tengjast tölvuleikjum.
Netflix er með meira en 207 milljón áskrifendur á heimsvísu og verður áhugavert að sjá hvernig til tekst, og verður forvitnilegt að sjá hvort að samkeppnisaðilar streymisveitunnar taki svipuð skref.