Arshlan „Ash“ Siddique er frá Pakistan og er atvinnumaður í leiknum Tekken. Hann segir ekki alla vegi færa fyrir rafíþróttafólk í heimalandi sínu, þar sé mikið um hæfileika en einnig margt sem hindrar þá í að fá tækifæri á heimsvísu.
Ash er einn atkvæðamesti Tekken-leikmaður í heimi, en hann vann m.a. mótið Evo Japan árið 2019 þar sem hann vann á móti besta Tekken-leikmanni í heimi. Í kjölfar sigurs á mótinu skrifaði hann undir samning við Red Bull esports. Hann átti þó ekki sjö dagana sæla er hann fór og keppti í Japan, en erfitt var að fá vegabréfsáritun vegna þjóðernis hans.
Heimsfaraldurinn hefur haft jákvæð áhrif á rafíþróttir í flestum löndum á heimsvísu, en því miður ekki í Pakistan. Flest mót hafa farið fram í gegnum internetið, sem virðist í fyrstu auðveld lausn og fyrir flesta er það lítið mál. Nettengingar í Pakistan eru þó lélegar og átti Ash í erfiðleikum með að halda áfram ferli sínum sem atvinnumaður er hann var fastur í heimalandi sínu í heimsfaraldri.
„Ég er fastur í heimalandi mínu, ég get ekki farið út, og af því að nettenging í Pakistan er léleg þá get ég ekki spilað á netinu. Það er mjög erfitt fyrir alla rafíþróttamenn, því við getum ekki gert neitt í þessum aðstæðum,“ segir Ash.
Ash dó þó ekki ráðalaus og heldur æfingabúðir fyrir Tekken-leikmenn í Pakistan sem miðuðust að því að kenna og þjálfa leikmenn til að verða betri. „Það eru fjölmargir leikmenn í Pakistan sem hafa mikla hæfileika en ekki fjármagn til að koma sér áfram í rafíþróttum. Þess vegna vildi ég hafa æfingabúðir til að styrkja þessa leikmenn eins og ég get. Ég þjálfa þá til að verða betri leikmenn og mun halda áfram að styðja þá í framtíðinni,“ segir Ash er hann talar um tilgang æfingabúðanna.
Tekken-leikurinn er vinsæll í Pakistan, en Ash er ákveðin fyrirmynd fyrir rafíþróttamenn þar í landi þar sem hann er einn af fáum Pakistönum sem hafa náð árangri út fyrir landsteinana. Ash telur að með því að þjálfa pakistanska leikmenn í Tekken og gefa þeim tækifæri til að keppa á móti honum, gefi hann þeim möguleika á að undirbúa sig fyrir möguleg tækifæri á alþjóðlegum vettvangi.