Arena, nýr þjóðarleikvangur rafíþrótta sem bráðlega verður opnaðurí Turninum við Smáratorg í Kópavogi, leitast við að bjóða upp á tölvuaðstöðu fyrir alla sem þangað leita.
Hægt verður að finna eitthvað við sitt hæfi hvort sem maður er tölvuleikjaspilari í leit að afdrepi til að spila í rólegheitum í flottri aðstöðu, hópur sem vill spila saman í gömlu góðu sófastemningunni eða árangursmiðaður rafíþróttamaður eða -lið sem lætur einungis bjóða sér það besta.
„Einfaldasta orðið til að lýsa Arena væri kannski „rafleikjahöll“, en það er samt ekki rétt því þetta er svo miklu meira,“ segir Sigurjón Steinsson, framkvæmdarstjóri Arena.
„Hérna verður ekki einungis þessi hefðbundna útleiga á PC-tölvum til einstaklinga heldur ýmiss konar þjónusta, bæði fyrir einstaklinga og hópa, að ónefndum veitingastaðnum okkar sem bætir öðru lagi ofan á það sem býðst gestum.“
Samtengdur Arena verður veitingastaðurinn Bytes, þar sem gestum býðst að panta ríkulegar pítsur, samlokur og aðra rétti. Staðurinn verður einnig með vínveitingaleyfi og því hægt að fá drykki með, og aðdáendum rafíþrótta býðst loks aðstaða til að setjast niður á þartilgerðu setusvæði eða „lounge“ til að fylgjast með helstu rafíþróttaútsendingum sem eru í gangi hverju sinni.
„Við vildum geta boðið upp á eitthvað fyrir alla sem heimsækja okkur og vildum líka geta boðið upp á framúrskarandi þjónustu. Þar vaknaði sú hugmynd að bjóða gestum að panta hjá okkur í gegnum snjallsímaforrit og fá veitingar afhentar beint til sín alla leið í sætið. Hvað varðar setusvæðið okkar, þá var það bara eitthvað sem okkur hafði fundist vanta og vildum endilega geta boðið upp á.“
„Okkur fannst þessi gamla góða sófastemning, eða „couch co-op“, oft gleymast, þrátt fyrir að vera mikilvægur þáttur af félagslegri tölvuleikjaiðkun. Þess vegna þótti okkur mikilvægt að hafa þessi svæði hjá okkur,“ segir Sigurjón.
Er þetta eflaust álitlegur kostur fyrir rafíþróttalið sem skortir aðstöðu en vilja fá að æfa saman í eigin persónu. Mun rafíþróttadeild Breiðabliks æfa á þessu svæði á daginn og er því einnig búið að setja upp aðstöðu fyrir líkamlegar æfingar fyrir utan herbergin.
„Við vildum ekki bjóða upp á neitt nema það besta og er því allur búnaður hjá okkur, allt niður í jaðarbúnað, frá Alienware. Allar tölvurnar í aðalrýminu eru Alienware Aurora R10 með AMD Ryzen 7 5800X-örgjörva, 32GB DDR4 vinnsluminni, M.2 PCIe NVMe hörðum diski og Nvidia GeForce RTX 3060 Ti 8GB skjákorti.
Í herbergjunum fórum við svo skrefi lengra og þar eru tölvurnar með AMD Ryzen 9 5900X-örgjörva og Nvidia GeForce RTX 3080 10Gb skjákorti. Allir skjáir eru 240 Hz Alienware 25-skjáir með 1 ms GtG og G-Sync. Svona búnað er ekki auðvelt að fá í dag og viljum við þakka Advania fyrir gífurlega gott samstarf í þeim málum.“
Í þeim tilgangi verða einnig tvö sérstök keppnisherbergi fyrir lið svo allt eigi sér stað á svæðinu.
Sem fyrr segir verður Arena opnað bráðlega í Turninum við Smáratorg í Kópavogi. Opið verður frá 11.30 til 01.00 virka daga og til 03.00 um helgar.
„Við hlökkum mikið til að bjóða alla velkomna og sýna gestum afrakstur vinnu okkar,“ segir Sigurjón spenntur fyrir komandi tímum.
Hægt er að fylgjast með gangi mála á heimasíðu Arena og facebooksíðu þeirra ásamt öðrum samfélagsmiðlum.