Rafíþróttasamtök Íslands í samstarfi við Arena, þjóðarleikvang rafíþrótta á Íslandi, hafa opnað Meta Production stúdíó og hafa Haukur Henriksen og Halldór Már Kristjánsson einnig þekktur sem Dói í GameTÍVÍ aðstoðað við uppbyggingu þess.
Haukur er verkefnastjóri stúdíósins og hönnuður á meðan Halldór er útsendingarstjóri.
„Stefnan með stúdíóið er að við verðum með allar beinu útsendingarnar fyrir Stöð 2 eSport þar.
Það er mikil spenna fyrir komandi helgi þar sem fyrsta útsendingin er núna á laugardaginn þegar að Stórmeistaramótið í CS:GO hefst.
En annars verður Vodafone deildin í CS:GO, Fifa og fleiri leikjum í beinni úr stúdíóinu. Ásamt því að hafa möguleikann á að leigja út aðstöðuna fyrir framhaldsskóla og grunnskóla, t.d. ef þau vilja koma og búa til sinn eigin sjónvarpsþátt eða bara hvað sem okkur dettur til hugar að bjóða uppá,“ segir Haukur en hann er einn af þeim sem hafa verið síðastliðna mánuði að skipuleggja og færa stúdíóinu líf.
Stúdíóið er hluti af rafíþróttastaðnum Arena sem opnar í næsta mánuði, en þar verður hægt að koma og stunda rafíþróttir auk þess sem veitingastaðurinn Bytes opnar í sama rými.
Haukur segir fyrsta verkefnið hafa verið að pæla í uppsetningu á stúdíóinu og hvernig rýmið gæti nýst sem best, en að borðið fyrir lýsendur hafi verið erfiðasti hluturinn til þess að ákveða.
„Ég tók þá áhættu að panta beinan front á caster borðið og svo verður hálfmáni fyrir aftan það með tveimur skjám í fyrir lýsendur að sjá bæði leikinn og sjálfa útsendinguna. Lýsendur koma til með að standa eða sitja í uppháum stólum við hálfmánann.
En fronturinn kemur frá Recon þar sem það er tauklæði með baklýsingu. Hann var einmitt settur saman fyrr í dag og kemur þetta mun betur út en ég þorði að vona. En auðvelt er að skipta um frontinn eftir því hvaða deild er í gangi hverju sinni. Af minni þekkingu hef ég ekki séð þetta gert áður í Íslensku sjónvarpi,“ segir Haukur.
„Aðal settið í stúdíóinu er þar sem caster borðið verður og Kristján Einar Kristjánsson fær til sín góða gesti til þess að rýna leikina í þaula og lýsa þeim leikjum sem eru í gangi á Stórmeistaramótinu og Vodafone deildinni,“ segir Haukur en Kristján Einar hefur verið að lýsa leikjum í Vodafone deildinni. í þokkabót á bakvið lýsendur í sama setti er stór 6x2m gluggi sem sýnir inn í nýja rafíþróttasvæðið Arena sem er að opna.
„Annað settið verður tvískipt, t.d. fyrir sófa spjall og sömuleiðis í FIFA að fá keppendur inn í sama rými til að keppa og gera meira úr því en áður hefur verið gert.
Þriðja settið er stór Green Screen veggur þar sem við höfum endalausa valmöguleika hvað við viljum gera," segir Haukur en það skemmtilega við grænskjá eru akkúrat möguleikarnir sem það býður upp á í eftirvinnslunni. Þá er hægt að bæta við hvaða bakgrunni sem er á mynd eða myndbandi sem tekið er upp með þessum svokallaða grænskjá.
„Green screen lýsing er mjög krefjandi að lýsa til þess að hún virki rétt. En með fagfólk í öllum málum að þá reddast allt. Svo þarf auðvitað að finna rétt efni í green screen vegginn,“ segir Haukur en grænskjásviðbótin var upprunalega hugsuð fyrir myndatökur á leikmönnum og sömuleiðis til þess að stækka útsendinguna í hverjum þætti. „T.d. ef þeir eru að tala um einn ákveðinn leikmann sem er að standa sig vel eða ekki, að þá er möguleiki að láta hann birtast í hvaða stærð sem er fyrir aftan lýsendur á green screen veggnum“.
Stúdíóið verður vígt um helgina þegar Stórmeistaramótið í fyrstu persónu skotleiknum Counter-strike: Global Offensive fer af stað en Halldór Már mun vera útsendingarstjóri mótsins og býður lýsendur leikjanna í stúdíóið til þess að lýsa leikjunum á meðan útsendingu stendur.