Dusty landar samningi við Cloud9

Leikmenn League of Legends liðs Cloud9 sem mætir til leiks …
Leikmenn League of Legends liðs Cloud9 sem mætir til leiks á heimsmeistaramótinu í Laugardalshöll í október. Skjáskot/youtube.com/Cloud9

Staðfest hefur verið að heimsmeistaramótið í League of Legends fer fram í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Eitt þeirra liða sem mun taka þátt í mótinu er bandaríska rafíþróttaliðið Cloud9, sem er eitt það stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Dusty og Cloud9 í samstarf

Íslenska rafíþróttaliðið Dusty hefur hafið samstarf með Cloud9, og verða liðin opinberir samstarfsaðilar á heimsmeistaramótinu Worlds 2021. Hafa liðin skrifað undir samning um samstarf til að tryggja sem bestan árangur liðs Cloud9 á stærsta rafíþróttamóti heims.

Cloud9 er eitt af bestu liðum heims í leiknum League of Legends, en liðið mun ferðast til Íslands fyrir heimsmeistaramótið sem fram fer í október og nóvember.

Dusty mun leggja til þjálfunaraðstöðu ásamt öðru

Með samstarfssamningnum mun Dusty leggja til þjálfunaraðstöðu, stuðning við skipulagningu, kynningartækifæri og aðra þjónustu til að stuðla að árangri Cloud9 í mótinu. Báðir aðilar munu einnig vinna saman á miðlum sínum til að vekja athygli á þessu spennandi samstarfi og stuðla að vaxandi vistkerfi rafíþrótta.

Vitnisburður um mikla vinnu allra sem að koma Dusty

Ásbjörn Daníel, framkvæmdastjóri Dusty, segir liðið himinlifandi að fá að vinna með slíkum risa í rafíþróttaiðnaðinum sem Cloud9 er. „Samstarfið er gríðarlegur vitnisburður um mikla vinnu allra sem koma að Dusty, og gefur okkur öll nauðsynleg tól til að flýta fyrir hröðum vexti okkar,“ er haft eftir Ásbirni í tilkynningu.

„Að mínu mati viðurkennir þetta samstarf þá staðreynd að rafíþróttir eru svo sannarlega landamæralausar og styrkir trú okkar á að samtök frá Íslandi geti byggt upp raunverulega fjölbreytt vörumerki á rafíþróttamarkaði á heimsvísu.“ 

Fyrirtæki eins og Dusty mikilvæg í eflingu rafíþróttaiðnaðarins

„Við erum spennt að vinna með Dusty á meðan heimsmeistaramótinu stendur. Það er ótrúlegt að vera ferðast til Íslands fyrir keppnina, og hún sýnir í raun hnattrænt eðli rafíþrótta. Ég hef ástríðu fyrir því að rækta og styðja við stækkun rafíþrótta, og eru brautryðjandi fyrirtæki eins og Dusty mikilvæg í eflingu rafíþróttaiðnaðarins,“ er haft eftir Jack Etienne, framkvæmdastjóra Cloud9.

„Ég trúi því að við séum að búa til besta mögulega umhverfi fyrir okkur til þess að njóta heimsmeistaramótsins. Núna er bara tími til að framkvæma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert