Margir muna eflaust eftir íslensku leikjasíðunni leikjanet.is en þar gat maður spilað ýmsa leiki á vefnum og voru þá vinsælastir leikir á borð við Bubbles, Tetris, Mahjong og einfaldan kapal.
Vefsíðan fór fyrst í loftið 2004 og var umferðin á síðunni hæst í kringum árið 2008 en þá voru á annað þúsund manns oft að spila samtímis. Vefurinn er ennþá uppi en á síðasta ári hættu allir leikir að virka þar sem tæknin sem þessir leikir byggðust á er ekki lengur studd af vöfrunum.
Vefsíðan bar með sér hlýlegt viðmót þar sem brúnt parketlag sat sem bakgrunnur og gulur kassi var á miðju síðunnar þar sem þú gast flett í gegnum leikina sem flokkaðir voru eftir gerð leikja, þeirra vinsælustu og jafnvel nýjustu leikjunum.
Á tímabili kom inn nýr leikur á síðuna daglega.
„Mjög skyndilega varð æði að spila ákveðna leiki og hver og einn leikur var bara á heimasíðu forritarans. Það var enginn einn staður til að finna svoleiðis, svo í raun sá maður tækifæri í því,“ segir Arthúr Ólafsson, stofnandi leikjanet.is í samtali við mbl.is.
Arthúr segir síðuna hafa verið eitt af fjöldamörgum áhugaverkefnum sem þeir félagarnir fóru út í en reynslan hefur nýst honum vel til vinnu þar sem hann starfar við vefmiðlun í dag.
Umferðin á síðunni jókst hratt og sáu umsjónarmenn síðunnar fyrir sér að geta selt auglýsingar á hana og gekk það vonum framar þegar íslensk fyrirtæki vildu fá að auglýsa á síðunni þeirra.
„Það voru vaxtarverkir og við lærðum heilmikið af þessu, að bregðast við þegar síðan varð annaðhvort hæg eða óaðgengileg og við þurftum að læra hvað maður gerir í því þegar þetta er orðið svona vinsælt,“ segir Arthúr um truflanir sem gátu komið upp vegna mikillar umferðar á síðunni.
Aðsókn síðunnar fór dvínandi í kjölfar tilkomu snjallsíma, þegar fólk hafði kost á völ að spila smáleiki í gegnum þá. Smám saman fór fólk að færa sig í snjallsímana og að lokum, árið 2020 hættu allir vafrar að styðjast við Adobe Flash Player sem leikirnir keyrðu á af öryggisástæðum.
„Þetta ævintýri snerist bara um hvað þetta varð ofboðslega vinsælt á stuttum tíma og hvað það kom okkur á óvart.“