Cloud9 lýsir yfir þakklæti sínu á Dusty

Ljósmynd/Dusty

Íslenska rafíþróttaliðið Dusty hóf samstarf með erlenda rafíþróttaliðinu Cloud9 sem er eitt af bestu liðum heims í leiknum League of Legends fyrr í mánuðinum.

Ómetanlegt tækifæri fyrir Dusty

Dusty lagði til þjálfunaraðstöðu fyrir liðið ásamt því að styðja almennt við liðið hvað varðar meðal annars skipulagningu og kynningartækifæri sem nýtist Cloud9 í heimsmeistaramótinu sem verður haldið hér á Íslandi og fer fram í október og nóvember.

Cloud9 þakkaði Dusty kærlega fyrir samstarfið og segir liðið hafa notið hvers augnabliks í þjálfunarbúðum Dusty.

Fullviss um góðan árangur Cloud9 á heimsmeistaramótinu

Eins birti Ásbjörn Daníel, framkvæmdarstjóri Dusty, á Twitter aðgangi sínum tíst þar sem hann segir síðustu vikur með Cloud9 hafa verið einstaklega skemmtilegar og að hann sé fullviss um að þeim muni ganga vel á heimsmeistaramótinu.

Æfingabúðir Dusty með þeim bestu

Tísti Ásbjörns svöruðu nokkrir stjórnarmenn innan Cloud9 þar sem þeir þökkuðu aftur fyrir sig og meðal annars sagði Vincent Lewis, liðsstjóri Cloud9, að æfingabúðir Dusty hafi verið með þeim bestu sem þeir hafa notast við og mælir eindregið með þeim.

Samböndin gulls ígildi og Cloud9 fullvissir um að þeir komi aftur

„Það sem við höfum auðvitað lært og öðlast í þessu samstarfi er innsýn inn í keppnis- og æfingaumhverfi þeirra bestu, ásamt samböndum sem munu vera gulls ígildi um ókomna tíð,“ segir Ásbjörn í samtali við mbl.is.

Cloud9 er mjög kröfuharður hópur, enda með bestu rafíþróttaliðum heimsins í tölvuleiknum League of Legends en voru þeir í skýjunum með allt.

Liðið hefur æft út um allan heim, í Evrópu, Asíu og Bandaríkjunum en þeir segja þessa upplifun hjá Dusty eina af bestu upplifunum af æfingaferðum sem þeir hafa átt hingað til og eru fullvissir um að þeir muni koma aftur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert