Einn stærsti rafíþróttaviðburður í heimi hefst í næstu viku, en um er að ræða Worlds 2021-heimsmeistaramótið í League of Legends sem fer fram í Laugardalshöllinni. Liðin eru komin til landsins og dvelja þau á hóteli í Reykjavík meðan á mótinu stendur.
Heildarverðlaunafé mótsins nemur rúmlega 283 milljónum íslenskra króna.
Undirbúningur liðanna hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig ef marka má Twitter. Leikmenn tveggja liða sem mæta til keppni á heimsmeistaramótinu hafa greint frá því á Twitter að nettenging sé af skornum skammti á hótelinu sem liðin dvelja á.
Einnig hafi komið upp vandamál með rafmagnstengingar, en Javier „Elyoya“ Prades, leikmaður MAD Lions, greinir frá því að rafmagn hafi slegið út fjórum sinnum á tveimur dögum.
Andrei „Odoamne“ Pascu, leikmaður liðsins Rogue, biður aðtoðarteymi Riot Games um aðstoð í twitterfærslu sinni, og segir að það væri notalegt að hafa smá net.
Net og rafmagn eru tveir grundvallarþættir sem þurfa að vera í lagi þegar kemur að tölvuleikjaspilun í rafíþróttum. Bestu leikmenn heims kvarta þannig undan því að hafa verið settir í þá stöðu að undirbúa sig fyrir heimsmeistaramót án þeirra tóla sem til þarf.
Margir aðdáendur leikmannanna hafa skotið fast á Riot Games fyrir að úthluta leikmönnum óviðeigandi vinnuaðstöðu fyrir svo mikilvægt mót.
Á rafíþróttamiðlinum Dot Esports er bent á að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem vandamál af þessu tagi koma upp á stórmóti í rafíþróttum á Íslandi. Leikmenn á mótinu Valorant Masters, sem fram fór fyrr á árinu, greindu frá net- og tölvuvandamálum meðan þeir dvöldu á Íslandi í aðdraganda mótsins.