Háspenna lífshætta í Laugardalshöll

Strákarnir í Gen.G sáttir eftir góðan dag, en þeir luku …
Strákarnir í Gen.G sáttir eftir góðan dag, en þeir luku riðlakeppninni á toppi síns riðils. Ljósmynd/Riot Games

Riðlakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends lauk í dag. Mótið fer fram í Laugardalshöll og er búið að vera mikið um að vera þar síðustu vikur. Riðlakeppninni lauk með gríðarlegri spennu í seinni umferð D-riðils, en næsta á dagskrá er úrslitakeppni mótsins sem hefst á föstudaginn.

Ljóst hvaða átta lið mæta í úrslitakeppninni

D-riðill, sem kláraðist í dag, var mest spennandi riðill mótsins en eftir hefðbundna keppni voru öll liðin jöfn að stigum. Grípa þurfti til bráðabana til að ákvarða hvaða tvö lið kæmust áfram í úrslitakeppnina. Eftir nokkra bráðabana varð ljóst að liðin Gen.G og MAD Lions væru þau lið sem enduðu í tveimur efstu sætum riðilsins og fara því í úrslitakeppnina.

Þá er komið í ljós hvaða átta lið spila í úrslitakeppninni sem hefst á föstudaginn, en það eru liðin DWG Kia, Cloud9, T1, EDward Gaming, Royal Never Give Up, Hanwha Life Esports, Gen.G og MAD Lions. Leikirnir í úrslitakeppni raðast upp eins og myndin hér sýnir.

Hér sést uppröðun liðanna í riðlakeppninni.
Hér sést uppröðun liðanna í riðlakeppninni. Skjáskot/Riot Games

1.sæti – Gen.G Esports

Lið Gen.G unnu tvo leiki í fyrri umferð riðlakeppninnar en aðeins einn í þeirri seinni. Enduðu þeir því með jafn mörg stig og hin liðin í riðlinum og spiluðu bráðabana um sæti í úrslitakeppninni. Í fyrri bráðabana unnu þeir á móti Team Liquid og í kjölfarið spiluðu þeir leik um fyrsta sæti riðilsins á móti MAD Lions. Gen.G unnu leikinn um fyrsta sæti riðilsins en leikurinn var mjög jafn.

2.sæti – MAD Lions

MAD Lions unnu tvo leiki í dag af þremur eftir að hafa unnið aðeins einn leik í fyrri umferð riðlakeppninnar. Að hefðbundinni riðlakeppni lokinni voru þeir með jafn mörg stig og hin liðin í riðlinum og spiluðu bráðabana á móti LNG Esports. Unnu MAD Lions þann leik og spiluðu svo leik um fyrsta sætið á móti Gen.G Esports. MAD Lions lutu í lægra haldi í leiknum um fyrsta sætið í riðlinum og enduðu því í öðru sæti.

3. - 4. sæti – LNG Esports

LNG Esports voru meðal tveggja efstu liðanna í riðlinum eftir fyrri umferð riðlakeppninnar og hefði verið nóg fyrir liðið að vinna tvo leiki í dag til að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. LNG Esports unnu hinsvegar aðeins einn leik í dag og voru eftir hefðbundna riðlakeppni með jafn mörg stig og hin liðin í riðlinum. Í bráðabana töpuðu þeir á móti MAD Lions og fara ekki áfram í úrslitakeppnina.

3. - 4. sæti – Team Liquid

Liðið Team Liquid hafði unnið einn leik og tapað tveimur í fyrri umferð riðalkeppninnar. Þeir unnu hinsvegar tvo leiki í dag og enduðu með jafn mörg stig og öll hin liðin í riðlinum. Töpuðu þeir svo í bráðabana á móti Gen.G og eru þar af leiðandi úr leik í mótinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka