Hörð barátta um toppsætið í Flatadeildinni

Flatadeildin í League of Legends.
Flatadeildin í League of Legends. Grafík/Flatadeildin

Flatadeildin í League of Legends er langt komin og eiga lið nú aðeins tvo leiki eftir í hefðbundinni riðlakeppni. Tvö lið deila toppsæti deildarinnar en þriðja liðið fylgir fast á eftir, en þrjú lið eiga möguleika á því að tryggja sér toppsætið næsta sunnudag. 

Öll liðin spila fjórtán leiki í heildina í riðlakeppninni þar sem þau mætast tvisvar. Hafa liðin nú spilað tólf leiki og munu spila síðustu tvo leiki sína næsta sunnudag.

Efstu fjögur liðin eftir riðlakeppnina komast í úrslitakeppnina. Átta sæti eru laus í úrslitakeppninni og verður haldið opið mót helgina 12. - 14. nóvember sem ákvarðar hvaða lið fá seinni fjögur sætin í úrslitakeppninni. Úrslitakeppnin verður svo haldin 19. - 21. nóvember. 

Þrjú lið í baráttunni um toppsætið

Liðin XY esports og lilpeepo5head eru jöfn stiga á toppi deildarinnar, en bæði lið hafa unnið tíu leiki og tapað tveimur. Ungmennafélag Bolungarvíkur er í þriðja sæti með níu unna leiki og þrjá tapaða. 

Keppnin um fjórða sæti deildarinnar er jöfn en þrjú lið eiga möguleika á að lenda í fjórða sæti. Liðið Charge E-sport er eina liðið í deildinni sem ekki hefur náð að vinna leik og sitja því á botninum. Liðið sem endar í fjórða sæti fær sæti í úrslitakeppninni og er því mikið undir fyrir þessi þrjú lið.

Fylgist með Flatadeildinni næsta sunnudag í beinni útsendingu á Twitch rás Rafíþróttasamtaka Íslands og finnið út hvaða fjögur lið komast áfram í úrslitakeppni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka