NAVI stofnar lið í Rocket League

NAVI teflir nú fram liði í Rocket League.
NAVI teflir nú fram liði í Rocket League. Skjáskot/youtube.com/NAVIRocketLeague

Rafíþróttafélagið Natus Vincere, oft kallað NAVI, hefur nú stofnað lið í leiknum Rocket League. Er þetta í fyrsta sinn sem NAVI mun tefla fram liði í leiknum, en félagið hefur náð langt í öðrum leikjum s.s. Counter-Strike:Global Offensive og Dota 2.

Vinsældir leiksins Rocket League fara vaxandi og kemur ekki á óvart að fleiri stór rafíþróttafélög tefli nú fram liði í leiknum. Rafíþróttafélagið NAVI er staðsett í Úkraínu en leikmenn Rocket League liðsins eru þó ekki þaðan.

Fyrsti leikur nýja liðsins á morgun

Leikmennirnir Tigree, LuiisP og Dead-Monster skipa nú lið NAVI í Rocket League, en áður spiluðu þeir fyrir liðið Fadeaway með ágætum árangri. Tryggðu leikmennirnir sér sæti í lokakeppni fyrsta viðburðar haustmóts RLCS í Evrópu er þeir spiluðu undir nafni liðsins Fadeaway. 

Þar sem liðið hefur aðeins fært sig um lið en ekki breytt leikmannahópi munu þeir leika í keppninni undir liðinu NAVI. Lokakeppni fyrsta viðburðarins í Evrópu hefst á morgun og verður leikin um helgina, en fyrsti leikur nýja NAVI liðsins verður á móti Team Queso á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert