Úrslitakeppni heimsmeistaramótsins í League of Legends hefst á morgun í Laugardalshöll. Riðlakeppni mótsins lauk síðastlitinn mánudag og varð þá ljóst hvaða átta lið spila í úrslitakeppninni.
Úrslitakeppnin er einföld útsláttarkeppni sem þýðir að tapi lið viðureign er það úr leik. Þýðir það einnig að liðin eru aðeins þremur sigruðum viðureignum frá heimsmeistaratitilinum.
Allar viðureignir úrslitakeppninnar eru best-af-5, sem þýðir að fyrsta liðið til að vinna þrjá leiki í viðureigninni stendur uppi sem sigurvegari viðureigninnar.
Ein viðureign verður spiluð á dag í fjóra daga, föstudag, laugardag, sunnudag og mánudag, en allar viðureignir hefjast klukkan 12:00 og eru sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás Riot Games og Stöð2 esport.
Hefst úrslitakeppnin á fjórðungsúrslitum, en þau lið sem vinna sínar viðureignir í fjórðungsúrslitum komast áfram í undanúrslit sem fara fram dagana 30. og 31. október. Úrslitaviðureignin verður leikin laugardaginn 6. nóvember.
Heildarverðlaunafé mótsins hljóðar uppá tæpar 300 milljónir íslenskra króna, en sigurvegari mótsins mun halda heim með rúmar 63 milljónir króna.
Fyrsta viðureign fjórðungsúrslita hefst klukkan 12:00 á morgun, föstudag, þegar T1 mætir Hanwha Life Esports. T1 luku riðlakeppni í fyrsta sæti B-riðils og Hanwha Life Esports enduðu í öðru sæti C-riðils.
Önnur viðureign fjórðungsúrslitanna fer fram á laugardaginn og hefst klukkan 12:00, en þá mætast liðin Royal Never Give Up og EDward Gaming. Royal Never Give Up voru í fyrsta sæti í C-riðli en EDward Gaming í öðru sæti í B-riðli.
Ríkjandi heimsmeistarar DWG Kia mæta MAD Lions í þriðju viðureign fjórðungsúrslita á sunnudaginn klukkan 12:00. DWG Kia fóru ósigraðir í gegnum riðlakeppnina og voru í fyrsta sæti A-riðils, en MAD Lions voru í öðru sæti í jöfnum D-riðili.
Síðasta viðureign fjórðungsúrslitanna verður leikin á mánudaginn klukkan 12:00 þegar Gen.G mæta Cloud9. Gen.G voru í fyrsta sæti í D-riðli en Cloud9 luku riðlakeppni í öðru sæti A-riðils eftir hetjulega baráttu.
Eins og áður segir eru allar viðureignir best-af-5 og verða því að lágmarki spilaðir þrír leikir milli liðanna í hverri viðureign. Má gera ráð fyrir að allir leikir liðanna hefjist á heila tímanum, en allar viðureignir byrja klukkan 12:00.
Hvaða lið mun hampa heimsmeistaratitlinum í ár? Ná ríkjandi heimsmeistarar DWG Kia að verja titilinn? Fylgstu með úrslitakeppninni til að finna út svörin við þessum spurningum.