Nýr tölvuleikur er í bígerð hjá fyrirtækinu Microsoft og Brass Lion Entertainment að sögn blaðamannsins Jez Cordens en leikurinn verður í anda hljómsveitarinnar Wu-Tang Clan og mun hljómsveitin skapa tónlist fyrir tölvuleikinn.
Corden segir í nýjasta hlaðvarpsþætti Xbox Two að hann hafi fyrst heyrt um Wu-Tang Clan-leikinn í júlí síðastliðnum og var hann þá undir dulnefninu „Shaolin“. Staðfestir hann sömuleiðis fréttirnar á twitteraðgangi sínum.
Tölvuleikurinn verður þriðju persónu ævintýra- og hlutverkaleikur þar sem leikmenn fara í alls kyns herferðir og geta aflað sér ýmissa fjársjóða sem búa að vopnum og öðrum búnaði sem nýtast í leiknum. Leikmenn fara einnig í gegnum hættulegar dýflissur og taka þátt í árstíðabundnum viðburðum.
Þróun leiksins er enn á byrjunarstigi og því ekki von á nánari upplýsingum í náinni framtíð. Hins vegar birti Brass Lion Entertainment færslu á Twitter þar sem óskað var eftir leikjahönnuðum til þess að vinna að ónefndum tölvuleik með þeim.