Tölvuleikjastreymirinn PewDiePie tjáir sig opinberlega um áfengisfíkn í myndbandi á YouTube og segist vera hættur að drekka.
Áfengisvandamál eru víða og geta herjað á hvern sem er óháð stöðu fólks. PewDiePie birti myndband af sér á YouTube þar sem hann viðurkennir að hann hafi átt við áfengisvandamál að stríða í þó nokkurn tíma.
Hann hefur verið fastur í dagdrykkju og að kljást við ýmis huglæg vandamál en hann telur sig nú vera frjálsan frá áfenginu.
Það var þó ekki auðvelt fyrir hann að hætta því gekk hann í gegnum fráhvörf að neyslu lokinni og átti við svefnvandamál að stríða í langan tíma.
Þrátt fyrir að vera hættur að drekka telur hann sig enn sitja uppi með fíknina og hefur hún færst yfir á nikótínpúða sem áhorfendur hafa stundum tekið eftir í myndböndunum hans.
PewDiePie talar einnig um andlegar og heimspekilegar bækur sem hann hefur verið að lesa og nýttust þær honum í að bera kennsl á vandamálið og koma sér út úr vítahringnum.
Umrætt myndband má horfa á hér fyrir neðan.