James Bardolph, frægur Counter-Strike lýsandi sem einnig hefur lýst fyrir aðra leiki eins og Apex Legends og bardagaleiki var nýlega á Íslandi þar sem hann var að lýsa The Machines Arena mótinu í Arena í Kópavogi.
Bardolph ólst upp í London í Englandi og dreymdi um að vera vélvirki þegar hann var yngri en seldi fasteignir um tíma og streymdi frá bardagaleiknum Street Fighter á kantinum sem ástríðuáhugamál.
Hann hafði tekið eftir því að í Bandaríkjunum voru leikmenn sem kepptu í Street Fighter mjög sýnilegir í streymum og voru að fá styrki héðan og þaðan en sagan var önnur í Evrópu, þar voru leikmenn oft ósýnilegir þrátt fyrir sömu hæfni eða jafnvel meiri. Þess vegna ákvað hann að taka á skarið og byrja að streyma frá þeim sem í kjölfarið varð til þess að ferðaðist víða til streyma frá leikjum.
Hann hefur ferðast mikið vegna vinnunnar og meðal annars farið á DreamHack, Quake, Svisslands og annarra landa til þess að streyma frá Street Fighter. Vegna þess að hann var lýsandi og framleiðandi fór fólk að ráða hann til þess að lýsa og eins hafði hann tök á því að ráða fólk sér til aðstoðar þegar lengra leið á ferilinn hans.
„Ástríðan leiddi mig þangað sem ég er í dag, það var engin sérstök leið. Maður þarf að búa sér til leið sjálfur, það er enginn sem opnar hurðina fyrir þig. Þú þarft að smíða hurðina sjálfur og labba í gegnum hana.“
Áður en Bardolph fór að lýsa Counter-Strike leikjum var hann að lýsa bardagaleikjum af nauðsyn vegna þess að hann var streymisframleiðandi. Í eitt skiptið í Frakklandi, þegar hann var að lýsa móti voru spilaðir átta mismunandi leikir en fjármagnið sem mótastjórn hafði dugði aðeins til þess að hafa tvo lýsendur.
Bardolph lýsti á því móti sjö leikjum, hvort sem hann þekkti þá eður ei og var það mjög krefjandi fyrir hann að halda uppi skemmtun án þess að fara út fyrir efnið en er það góð reynsla fyrir hann inn í ferilinn.
„Kaldhæðnislega, þá lýsti ég þessum leikjum eins og sá sem lýsti söngvakeppninni Eurovision í Englandi í mörg ár. Stíllinn hans veitti mér mikinn innblástur,“ segir Bardolph en hann hefur ekki horft á Eurovision í nokkur ár núna. Hann sagði kvikmyndina um Eurovision Song Contest hinsvegar hafa verið sprenghlægilega.
„Mikill tími fer í að spila tölvuleikina sem ég er að lýsa, til þess að vita hvað ég er að tala um. Líka að horfa á þá til þess að þekkja sögur leikmanna því það er mitt hlutverk að halda þessum sögum lifandi,“
Bardolph telur að til þess að verða góður í keppnistölvuleikjum sem krefjast herkænsku, þarf maður að geta horft tilbaka og skoðað hvað fór á mis hjá manni. Maður þarf að geta breytt um stefnu og aðlagast. Sérstaklega í liðaleikjum þar sem maður þarf að efla félagslegu hæfni sína til þess að geta átt samskipti við aðra og lært af þeim.
Einnig lærir maður að starfa sjálfstætt með því að verða sér uppi um upplýsingar um hvernig maður getur orðið betri í leiknum með því að til dæmis horfa á myndbönd af reyndari spilurum og fylgjast með því hvernig þeir gera betur.
„Það eru fullt af góðum eiginleikum sem maður getur eflt með því að spila tölvuleiki ef þú hefur metnaðinn.“
Bardolph er að vinna í að byrja á sínu eigin hlaðvarpi sem verður frábrugðið mörgum öðrum tölvuleikjahlaðvörpum þar sem flest tölvuleikja hlaðvörp einblína á aðeins á leikina og leikmennina sjálfa.
Bardolph vill tala meir um það sem vekur áhuga hjá honum sjálfum og velta fyrir sér ýmsum hlutum tengdum tölvuleikjaspilun eins og hvers vegna músamottum er yfirleitt rúllað upp fyrir pökkun.
„Ég hef alltaf velt því fyrir mér hvers vegna það er gert, það er pirrandi. Afhverju í ósköpunum myndi einhver gera þetta,“ segir Bardolph vegna þess að þegar það gert þá mótast músamottan ójöfn og brettist upp á hliðarnar á þeim. Þá þarft að fletja þær út sérstaklega með til dæmis straujárni eða öðrum aðferðum.
Hann hefur rætt við ýmsa sérfræðinga um málefni sem þessi og verður áhugavert að heyra útskýringar á hlutum sem viðkoma tölvuleikjaspilun frá stærra sjónarhorni í hlaðvarpi James Bardolph.
Bardolph er ekki bara klár í tölvuleikjum heldur er hann einnig góður kafari og hefur verið að kafa í nokkur ár.
Hann vann í bandarísku sjónvarpi í Atlanta og þar var risastór fiskabúr sem milljarðamæringur lét setja upp og er fiskabúrið með stærstu fiskabúrum í heiminum. Í búrinu bjuggu allskyns fiskar og meðal annars hákarlar.
„Það kom í ljós að ef þú ert með köfunarréttindi þá mátt þú kafa í þessu fiskabúri. Svo ég hugsaði með mér, hvernig í ósköpunum læri ég að kafa?“ segir Bardolph og fór á fullt í að læra köfun á milli útsendinga.
Hann varð strax ástfanginn af því að kafa þegar hann byrjaði og segir þessa reynslu hafa breytt lífi sínu og hvernig hann ferðast, sem hann gerir mikið vegna vinnu.
„Hvert sem ég fer þegar ég ferðast, athuga ég alltaf hvort ég geti farið að kafa í nágrenninu, í fiskabúri eða flogið eitthvert annað og þá kafa ég þar.“
Bardolph telur köfun vera góða hugleiðslu og segir frá því að þegar þú ert ofan í vatni og dregur andann örlítið inn, þá flýtur þú örlítið upp. Ef þú andar örlítið frá þér, þá sekkur þú örlítið neðar. En ef þú andar ekki, þá stendur þú í stað og komi öldur þá fylgir þú öldunum til hliðar.
„Það er svo fallegt, hvort sem þú ert að kafa með hákörlum, skjaldbökum eða pínulitlum fiskum, það er alveg magnað. Þetta er allt annar heimur. Ef þú getur kafað, þá ættir þú að kafa. Þú hugsar ekki um neitt, þú ert bara í augnablikinu.“
Bardolph er duglegur að taka ljósmyndir og hefur gert það í mörg ár líka. Flestar myndir sem hann tekur eru svart-hvítar og má skoða ljósmyndabloggið hans hér.