Íslenskur förðunarfræðingur málar sig fyrir Twitch

Óla Blöndal í gervi Pikachu.
Óla Blöndal í gervi Pikachu. Ljósmynd/Aðsend

Tuttugu og fimm ára íslensk kona að nafni Óla Blöndal hefur verið að streyma af sér myndböndum að spila tölvuleiki í níu mánuði en hún á það til að „mála sig í karakter“ þegar henni gefst tími til.

Áhorfendur koma með uppástungur

Nú þegar er Óla komin með um 1,100 fylgjendur á Twitch rásina sína, olalitla96, og spilar hún ýmsa leiki á borð við Apex Legends og Phasmophobia.

„Fólk sem fylgist með mér kemur líka með ákveðnar hugmyndir af förðun sem ég geri fyrir streymi, það er nokkurs konar áskorun,“ segir Óla í samtali við mbl.is en hún er menntaður förðunarfræðingur og lærði hún hjá Mask Makeup & Airbrush Academy.

Óla Blöndal fyrir eitt streymið.
Óla Blöndal fyrir eitt streymið. Ljósmynd/Aðsend

Vilja fylgjast með förðuninni

Áhorfendur hafa verið að biðja hana um að sýna frá því þegar hún byrjar að mála sig til þess að fylgjast með framvindu þess og er hún að hugsa málið sem stendur.

Förðunin hefur því vakið mikla athygli og hefur hún meðal annars málað sig sem Harley Quinn, Spiderman, Pikachu auk annarra persónna úr tölvuleikjaheiminum.

Óla Blöndal með Spiderman-förðun.
Óla Blöndal með Spiderman-förðun. Ljósmynd/Aðsend
Óla Blöndal förðuð sem Harley Quinn.
Óla Blöndal förðuð sem Harley Quinn. Ljósmynd/Aðsend

Byrjaði að spila í faraldrinum

„Ég í rauninni byrjaði að spila tölvuleiki þegar faraldurinn var sem verstur og maður gat ekki farið út að hitta vini sína eða neitt slíkt. Ég var annars ekki að spila neitt af viti fyrir það.“

Þegar Óla byrjaði að spila fór hún að finna fyrir miklum áhuga á að byrja að streyma og ákvað hún að prófa og láta reyna á það.

„Ég fékk líka mikinn innblástur frá frænda mínum sem hefur verið að þessu í mörg ár og hef verið að fylgjast mikið með honum,“ segir Óla en frændi hennar hefur hjálpað henni mikið.

Átti erfitt með að tala við fólk

„Það var ansi stressandi fyrir mig að byrja á þessu því ég hef alltaf verið frekar feimin manneskja og átt erfitt með að tala við fólk.“

Það að streyma hjálpar Ólu mikið hvað þetta varðar og hefur hún verið að byggja upp samfélag á netinu og kynnst mikið af frábæru fólki í gegnum streymin, bæði á Íslandi og annars staðar.

Áhorfendur sýna mikinn kærleik

„Það eru allir svo voða vingjarnlegir og sýna mér og öllum svo mikla ást. Ég endaði með að brotna gjörsamlega niður eitt skipti á streymi því það var allt svo yfirþyrmandi,“ segir Óla og finnst henni besti þátturinn við þetta einmitt vera fólkið og að fá að kynnast því.

„Held það hafi ábyggilega verið í fyrsta sinn sem ég hef grátið af gleði.“

Skjáskot úr Twitch-streymi þegar Óla grét af gleði.
Skjáskot úr Twitch-streymi þegar Óla grét af gleði. Skjáskot/Twitch/olalitla96

Lætur tröllin ekki hafa áhrif á sig

Hún segir tröll hafa koma við á streymunum hennar og verið með einhver leiðindi en tekur hún því með æðruleysi og reynir að láta það ekki hafa áhrif á sig.

Að lokum tekur Óla fram að þetta hafi verið sérlega skemmtilegt ferðalag og að hún sjái alls ekki eftir því að hafa byrjað á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert