Þrítugasti og annar þáttur af Leikjavarpinu, hlaðvarp á vegum Nörd Norðursins, er nú kominn í loftið og hægt að hlusta á öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Að þessu sinni eru það Sveinn Aðalsteinn, Daníel Rósinkrans og Bjarki Þór sem eru mættir til að ræða um allt það helst úr heimi tölvuleikja.
Það er úr ýmsu að taka og má þar meðal annars nefna nýjar fréttir varðandi útgáfu Cyberpunk 2077 og The Witcher en útgáfusaga Cyberpunk 2077 virðist vera sagan endalausa.
Strákarnir rýna í nýju stikluna úr Uncharted kvikmyndinni en það er enginn annar en Tom Holland sem fer með hlutverk Nathan Drake í myndinni og ekki allir í hópnum sammála með hve vel sá leikari passar í hlutverkið.
Endurútgáfa GTA þríleiksins (GTA III, Grand Theft Auto: Vice City og Grand Theft Auto: San Andreas) er væntanleg og ákveðin spenna sem fylgir því enda marka þessir leikir ákveðin tímamót í GTA-seríunni.
Rósinkrans segir okkur frá Nintendo Expansion Pack en þar geta Nintendo Switch eigendur fengið aðgang að gömlum N64-leikjum gegn gjaldi.
Sveinn segir aðeins frá nýjasta Football Manager leiknum en beta-útgáfa leiksins er nú aðgengileg víða en formlegur útgáfudagur Football Manager 2022 er 9. nóvember næstkomandi.
Sveinn fjallar einnig um og gagnrýnir Marvel-leikinn Guardians of the Galaxy en The Avengers tölvuleikurinn náði ekki alveg að standast væntingar líkt og kom fram í 14. þætti Leikjavarpsins og því spurning hvernig Guardians of the Galaxy kemur út.