Tölvuleikinn Fortnite verður ekki hægt að spila í Kína eftir 15. nóvember en þar er hann einnig þekktur sem Fortress Night, haft eftir thegamer.
Í Kína er búið að eiga við tölvuleikinn Fortnite og spila því Kínverjar sérstaka útgáfu af leiknum. Í kínverskri útgáfu eru engin kaup gerð innanleikjar eins og þekkist hér en leikmenn utan Kína geta borgað fyrir ýmsar útlitsbreytingar (e. skins).
Samkvæmt Fortnite Wiki hætta kínverskir Fortnite-leikmenn að fá reynslustig eftir að hafa spilað samfleytt í 90 mínútur og geta heldur ekki tekið þátt í áskorunum sem leikurinn býður upp á. Birtist þá á skjánum tilkynning þar sem leikmenn eru minntir á að snúa sér aftur að heimalærdómi eða skólaskyldu.
„Prófinu á „Fortress Night“ er lokið. Við munum loka þjóninum á næstunni,” stendur á opinberri vefsíðu kínverska leiksins samkvæmt tungumálaþýðingu frá Google Translate.
„Klukkan 11 að morgni 1. nóvember verður skráningu nýrra leikmanna lokað og niðurhalsgáttinni lokað. Klukkan 11 að morgni 15.nóvember verður netþjónn leiksins lagður niður og notendur geta ekki skráð sig í leikinn.“
Koma þessar fréttir ekki á óvart þar sem yfirvöld í Kína hafa verið að takmarka tölvuleikjanotkun barna til þess að sporna við tölvuleikjafíkn en í september voru sett ný lög varðandi tölvuleikjaspilun barna.
Í nýjum lögum er börnum aðeins heimilt að spila í eina klukkustund í senn þrjá daga vikunnar, sem gerir börnum kleift að spila í þrjár klukkustundir á viku.