Kamila Dabrowska, einnig þekkt sem „KamCarrier“ er 27 ára gamall Warzone-leikmaður og er hún jafnframt hluti af fjóreykinu Babe Patrol sem streymir á GameTíví á miðvikudagskvöldum.
Í byrjun Covid faraldursins fór Kamila í tveggja vikna sóttkví og byrjaði hún þá að spila tölvuleiki. Vinkona hennar, Högna, hafði hvatt Kamilu og vinkonur til þess að spila með sér tölvuleikinn Call of Duty: Black Ops en voru þær vinkonurnar lítið spenntar fyrir því.
Hinsvegar þegar Kamila og vinkonur fóru að spila tölvuleikinn Call of Duty: Warzone var ekki aftur snúið og eins og fyrr var getið streymir Kamila nú vikulega frá spilun tölvuleiksins á GameTíví.
Kamila hefur ekki tileinkað sér neina sérstaka rútínu hvað varðar spil á tölvuleikjum en hún er dugleg að spila nokkra leiki með stelpunum á kvöldin þegar tími gefst.
„Það er alltaf eitthvað í gangi hjá okkur stelpunum í Babe Patrol. Eins og er ætlum við að halda áfram að gera það sem okkur finnst skemmtilegast, að spila saman Warzone og streyma,“ segir Kamila en hún hefur einnig prófað aðra leiki þó að Warzone standi mest upp úr og er hennar uppáhalds leikur.
Kamila segir það ekki hafa hvarflað að henni hversu stórar rafíþróttir yrðu þegar hún var yngri en henni þykir gaman að sjá hvað Ísland er orðinn stór partur af rafíþróttaheiminum og eins hve ört hann fer stækkandi.
„Það er einn leikur sem ég man sérstaklega eftir að hafa spilað svolítið þegar ég var yngri. Þegar við vinkonurnar í grunnskóla fórum heim eftir skóla að spila saman Crash Bandicoot á PlayStation 1, sem ein okkar átti,“ segir Kamila en var það fyrsti leikurinn sem hún spilaði á PlayStation-tölvu.
„Ég hef aldrei hugsað mér að taka þátt í neinum keppnum, en hver veit nema það komi til þess einn daginn,“ segir Kamila en hefur hún það að markmiði að spila tölvuleiki eins lengi og hún hefur gaman að.
Kamila ráðleggur upprennandi rafíþróttamönnum að prófa sig áfram í tölvuleikjum og finna þá leiki sem þeim finnst gaman að spila og þeim sem hafa ekki prófað, að taka á skarið og láta vaða.
„Hvort sem það væri til þess að streyma fyrir aðra eða bara hittast með vinum í gegnum skjáinn og hafa gaman, þetta þarf ekki endilega að snúast um að vera góður í tölvuleikjum,“ segir Kamila.
Þykir Kamilu einstaklega vænt um þær minningar sem þær í Babe Patrol eru að skapa saman um þessar mundir, „verandi við sjálfar að streyma fyrir framan tölvuskjáinn og að fólk vilji taka þátt í þessu með okkur.“
Að lokum skorar Kamila á alla þá sem hafa viljað prófa að spila tölvuleiki en ekki látið verða að því að slá til og eins hvetur hún til þess að kíkja á streymið þeirra í Babe Patrol á miðvikudögum klukkan 21:00 bæði á GameTíví rásinni á Twitch og á Stöð2 Esports.
„Það er aldrei of seint að prófa að spila tölvuleiki.“