Teiknimyndaþáttaröðin Arcane fór í loftið síðastliðinn laugardag á Netflix en hún markar upphaf tölvuleiksins League of Legends á hvíta tjaldinu.
Hafa aðdáendur og leikmenn League of Legends beðið lengi eftir þáttaröðinni en hana átti fyrst að sýna árið 2020.
Arcane fer fram í tveimur mikilvægustu borgum tölvuleiksins, Piltover og Zaun en það eru einskonar systurborgir þar sem hin þróaða borg Piltover liggur ofan á neðanjarðar borginni Zaun.
Hetjurnar úr League of Legends, Jinx og Vi, sem eru jafnframt systur fara með aðalhlutverkin en eins munu fleiri hetjur njóta sviðsljóssins þegar líður á þáttaröðina.
Þáttaröðin mun sýna áhorfendum uppruna nokkurra vinsælustu hetja tölvuleiksins og færa þeim persónulegri innsýn inn í hinn ævintýralega heim League of Legends.
Í fyrstu seríunni verða níu þættir og munu þeir birtast vikulega á Netflix. Nú þegar hefur fyrsti þátturinn fengið góða dóma á imdb en þáttaröðin situr með einkunnina 9,4 af 10.