Skemmtikrafturinn Halldór Már, einnig þekktur sem Dói, hefur reglulega verið að deila myndböndum af sér á Twitch-rás GameTíví þar sem hann dýfir ýmsum handahófskenndum mat jafnt sem nammi ofan í hina sígildu Vogaídýfu frá Vogabæ.
Myndböndin eru klippt úr mánudags þáttinum á GameTíví en þau eru orðin fimm talsins og hægt er að finna klippurnar undir nafninu „Dói Dýfir“.
Í nýjustu klippunni smakkar hann meðal annars sérstaka tegund af súkkulaðinu Kit Kat en hann hafði fengið það sent frá London.
Dói dýfir einnig sterkum og súrum nammimolum í ídýfuna en virðist sterki molinn hafa verið einstaklega sterkur þar sem Dói tekur stuttu seinna sopa af ídýfunni til þess að kæla bragðið niður.
Hægt er að horfa á myndbandið í heild sinni hér að neðan eða á Twitch rás GameTíví.