NAVI sigra PGL Major í Stokkhólmi

NAVI lyfta stórmeistaratitlinum eftir sigur á PGL Major í Stokkhólmi.
NAVI lyfta stórmeistaratitlinum eftir sigur á PGL Major í Stokkhólmi. Skjáskot/twitter.com/s1mpleO

Úrslit stórmeistaramótsins PGL Major í Stokkhólmi í leiknum Counter-Strike:Global Offensive fóru fram í gærkvöldi. NAVI stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins eftir að hafa mætt G2 í úrslitaviðureign.

Áhorfendur leyfðir á fyrsta stórmeistaramótinu í tvö ár

Vegna heimsfaraldurs hefur verið lítið um stórmót í CS:GO undanfarin ár, en tvö ár eru síðan stórmeistaramót í leiknum var haldið. Áhorfendur voru leyfðir á leikvangini PGL Major í Stokkhólmi, en rafíþróttamót sem leyfa áhorfendur á leikvöngum hafa verið af skornum skammti á meðan heimsfaraldri stendur, og var þetta því mikið fagnaðarefni fyrir aðdáendur. 

Mótið hófst 26. október síðastliðinn, en leiknar voru tvær umferðir af svokölluðu „swiss“ sniði. Efstu átta liðin eftir þá keppni fóru áfram í úrslitakeppnina, en leikin var einföld útsláttarkeppni þar sem allar viðureignir voru best-af-þrem leikjum, sem þýðir að lið þurftu að sigra tvo leiki á móti andstæðingum sínum til að halda áfram í næstu umferð.

Hér má sjá skjáskot af áhorfendapöllunum í Stokkhólmi á PGL …
Hér má sjá skjáskot af áhorfendapöllunum í Stokkhólmi á PGL Major í Stokkhólmi. Skjáskot/twitch.tv/PGL

Úrslitaviðureignin byrjaði í Ancient

Liðin NAVI og G2 Esports mættust í úrslitaviðureign mótsins. NAVI höfðu sigrað Team Vitality í fjórðungsúrslitum og Gambit Esports í undanúrslitum, en G2 Esports sigruðu NiP í fjórðungsúrslitum og Heroic í undanúrslitum.

Þau þrjú kort sem urðu fyrir valinu í úrslitaviðureigninni voru Ancient fyrst, Nuke annað og Mirage ef kæmi til þriðja leiks. 

Fyrsti leikur var spilaður í Ancient og var sá leikur jafn framanaf, en lauk með 16-11 sigri NAVI. Með sigri í fyrsta leik voru NAVI aðeins einum leik frá því að tryggja sér stórmeistaratitilinn á mótinu, á meðan G2 Esports voru tveimur sigrum frá titlinum.

G2 Esports byrjuðu betur í öðrum leiknum í Nuke og voru yfir mestallan leikinn. NAVI voru hinsvegar ekki tilbúnir að játa sig sigraða og þegar staðan var 15-10 fyrir G2 Esports tóku NAVI af skarið. NAVI sigruðu þá fimm lotur í röð og náðu að knýja fram framlengingu í leiknum.

NAVI meistarar eftir tvíframlengdan lokaleik

Jafnt var eftir fyrstu framlengingu og var staðan 18-18. Leiknum var því framlengt aftur og varð lokaniðurstaðan 22-19 fyrir NAVI í Nuke og tryggðu þeir sér stórmeistaratitil PGL Major í Stokkhólmi eftir æsispennandi tvíframlengdan lokaleik. Hægt er að nálgast útsendingu úrslitaleiksins hér. Metáhorf var á úrslitaviðureignina, en 2,5 milljónir fylgudst með úrslitaviðureigninni og er það mesta áhorf á móti í CS:GO sem vitað er um.

NAVI standa uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar PGL Major mótsins í Stokkhólmi eftir frábæra frammistöðu. Með sigrinum hljóta NAVI rúmlega 130 milljónir íslenskra króna. Þess má geta að NAVI tapaði ekki einum leik í öllu mótinu.

Sasha „s1mple“ Kostyliev, leikmaður NAVI, var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins en hann spilaði gríðarlega vel í öllum leikjum NAVI á mótinu.

S1mple var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins.
S1mple var valinn mikilvægasti leikmaður mótsins. Skjáskot/twitter.com/HLTVorg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert