Stórmótið DreamHack Open í leiknum Counter-Strike:Global Offensive hefst á morgun. Mótið er haldið á mismunandi landssvæðum yfir árið, en nú í nóvember er Evrópukeppni mótsins spiluð. Átta lið mæta til leiks og fer mótið fram dagana 10. - 14. nóvember.
Fjögur lið þeirra átta sem mæta til leiks á DreamHack Open í Evrópu unnu sig inn í keppnina í undankeppni, en hinum fjórum liðunum var boðið á mótið. Heildarverðlaunafé mótsins eru rúmlega 13 milljónir íslenskra króna.
Mótið er hluti af mótaröðinni ESL Pro Tour, þar sem liðin safna stigum til að eiga möguleika á að tryggja sér sæti á stærri viðburðum á fimmtánda tímabili ESL.
Keppt verður í tveimur riðlum, og efstu tvö lið hvors riðils halda áfram í úrslitakeppni. Allar viðureignir mótsins eru best-af-3 nema úrslitaviðureignin sem er best-af-5. Í A-riðli eru liðin BIG, MOUZ, MAD Lions og Team GamerLegion, en í B-riðli eru liðin ENCE, Team Spirit, Fnatic og forZe.
Hægt verður að fylgjast með mótinu í beinni útsendingu á Twitch rás ESL CS:GO en fleiri upplýsingar um tímasetningar leikja og úrslit er hægt að finna hér.