Jóhann Alexander Viðarsson, einnig þekktur sem Kazaxu er 28 ára gamall tölvuleikjastreymir en hann og unnusta hans fluttu til Svíþjóðar árið 2016 og starfar hann þar sem húsasmiður.
Þrátt fyrir að vera búsettur í Svíþjóð þá er hann virkur innan íslenska tölvuleikjasamfélagsins og streymir hann alla virka daga auk laugardaga frá 18:30 til 22:00 á Twitch rásinni kazaxu.
Vegna alþjóðlegs áhorfendahóps þá hefur Jóhann notast við þrjú mismunandi tungumál á streymum sínum til þess að ná til áhorfenda sinna.
„Stefnan mín er að spjalla við fólk og stækka hópinn okkar hér á Twitch,“ segir Jóhann í samtali við mbl.is.
Jóhann spilar mest tölvuleikinn New World en hann hoppar stundum á milli leikja og þá spilar hann leiki á borð við Back 2 Blood eða A Way Out.
Það er margt á prjónunum hjá Jóhanni og mun hann meðal annars spila með unnustu sinni hryllingsleik í beinu streymi en kemur það á óvart þar sem hún hvorki spilar tölvuleiki né horfir á hryllingsmyndir.
Hann hefur ekki verið að keppa í rafíþróttum en er opinn fyrir hugmyndinni og segir að það gæti værið mjög skemmtilegt.
„Frá því að Twitch varð að veruleika hefur mig alltaf langað til að streyma, en þorið var ekki til staðar,“ segir Jóhann en hann hugsaði þetta fram og tilbaka í rúm tíu ár en það var núna í byrjun sumars sem hann hugsaði með sér að nú skuli hann gera þetta og ekkert rugl.
„Eftir það hef ég núna verið að streyma næstum hverja einustu viku í sex mánuði,“ segir Jóhann og hvetur aðra áhugasama streymara sem eru með sviðskrekk að til þess að láta af óttanum og prófa.
Árið 1998, þegar hann var sex ára gamall, fékk hann ásamt systkinum sínum PlayStation 1 tölvu í jólagjöf og þrjá tölvuleiki, Spyro The Dragon, Tekken 3 og Tomb Raider.
„Þá var ekki aftur snúið frá tölvuleikjum og frá og með þeim degi hef ég alltaf haft rosalegan áhuga á tölvuleikjum.“
Varðandi rafíþróttir, þá sá Jóhann ekki fyrir sér hversu stórar þær myndu verða.
„Ég fylgdist rosalega með World first race í World of Warcraft, þegar Nihilum var að spóla í gegnum öll hin guildin í World first boss kill. En eftir þetta fannst mér að rafíþróttirnar byrjuðu að koma upp, þótt að race to world hafi ekki verið rosalega vinsælt.“
„En þetta fannst mér alveg frábært að sjá, að það væri hægt að keppa í svona tölvuleikjum.“
Eins minnist Jóhann þess þegar Nihilum kláruðu Black Temple árið 2007 með Kungen í fararbroddi og segir marga sem spiluðu World of Warcraft áður fyrr muna eftir þessu.
Jóhann segist taka eftir þessum stóra vaxtarsprett rafíþrótta á Íslandi og jafnframt „elskar það“.
„Maður hefði viljað sjá þetta þegar maður var yngri, því þá var þetta svo mikil mýta að fólk sem spilaði tölvuleiki voru bara nördar.“
Hann vonast eftir því að geta skemmt fólki á streyminu sínu og að lokum býður Jóhann öllum að koma við á streyminu hans og spjalla og skemmta sér.