Menntaskólinn á Tröllaskaga hefur lagt aukna áherslu á rafíþróttir og tölvuleiki og virðist það vera í takt við tímann ef horft er til stækkandi samfélags og vettvangs rafíþrótta.
Með aukinni áherslu hefur Menntaskólinn á Tröllaskaga bætt við fleiri tölvuleikjaáföngum á komandi vorönn.
Áfangar sem eru í boði í gegnum fjarnám eru yndisspilun, leikjahönnun og kvikmyndir og tölvuleikir og er skráningin hafin á vefsíðu Menntaskólans á Tröllaskaga.
Tölvuleikjaáfangar sem fara fram á staðnum eru rafíþróttir, spilun og heilsa ásamt rafíþróttum og rafíþróttamenningu og myndlist í tölvuleikjum.
Bjarki Þór Jónsson kennir áfangana sem fara fram í gegnum fjarnám en hann er bæði framhaldsskólakennari og einn af þáttastjórnendum Leikjavarpsins sem er hlaðvarp á vegum Nörds norðursins.
Yndisspilun er sambærilegur öðrum áfanga, „yndislestri“, nema í yndisspilun eru spilaðir tölvuleikir. Þar velja nemendur sér leiki af lista til að spila og vinna út frá en reynt er að hafa listann fjölbreyttan. Í þessum áfanga fá nemendur tækifæri á að kynnast tölvuleikjum sem gagnvirkum miðli, frásagnarformi og afþreyingu.
„Yndisspilun er alveg nýr áfangi sem hefur hvergi verið kenndur áður og á Tryggvi Hrólfsson, kennari í MTR, heiðurinn af þeirri hugmynd,“ segir Bjarki í samtali við mbl.is.
Í leikjahönnun er notast við leikjavélina Clickteam Fusion 2.5 sem meðal annars var notuð til þess að búa til tölvuleikinn Five Night at Freddy's. Eins notast nemendur við myndvinnsluforrit til þess að búa til alls konar smáleiki og „prótótýpur“.
Hér skoða nemendur hvað gerir leiki skemmtilega og áhugaverða ásamt því að notendaupplifun er hugleidd.
„Leikjahönnun hef ég kennt áður í FÁ og svo hefur áfanginn kvikmyndir og tölvuleikir verið í boði áður í fjarnámi í MTR.“
Í kvikmynda- og tölvuleikjaáfanganum er skoðað hvað kvikmyndir og tölvuleikir eiga sameiginlegt og eins hvað það er sem einkennir þá. Einnig eru valin hugtök tekin fyrir og skoðað dæmi um það hvernig tölvuleikir og kvikmyndir geta unnið saman.
Í áfanganum rafíþróttir, spilun og heilsa er farið yfir allt það helsta sem tengist rafíþróttum. Helstu leikir eru kynntir ásamt atvinnumöguleikum sem finna má í geiranum en jafnframt er undirstrikað mikilvægi hreyfingar, svefns og svo framleiðis.
Áfanginn rafíþróttir og rafíþróttamenning er líka nýr áfangi en þar fá nemendur tækifæri á að dýpka þekkingu sína á rafíþróttum sem og rafíþróttamenningu. Á önninni taka nemendur þátt í undirbúningi fyrir rafíþróttamót.
Myndlist í tölvuleikjum er grunnáfangi í myndlist sem miðar að þróun útlits og uppbyggingar í tölvuleikjum á myndrænan hátt. Þar verða grunnatriði teikningar, anatómíu, málunar, form- og litafræði tekin fyrir.
Þar er lögð áhersla á miðlun listrænna afurða nemenda og tjáningu þeirra um sköpun sem tengist tölvuleikjum, rafíþróttum og teiknimyndum og skapa því nemendur sinn eigin tölvuleikjaheim á myndrænan hátt.
Allar áfangalýsingar skólans má finna hér en áhugasamir geta einnig leitað til náms- og starfsráðgjafa með því að panta tíma í fjarviðtal.
„MTR hefur boðið upp á fjölbreytt námsval í gegnum árin og rafíþróttir eru einn liður í því. Skólinn býður til dæmis líka upp á áfanga í skapandi tónlist, mat og menningu, listljósmyndun og myndlist svo eitthvað sé nefnt.“