Telur brýnt að skoða umhverfi rafíþrótta

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðhera.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðhera. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drög að fyrstu íslensku rafíþrótta- eða rafleikjastefnunni eru nú til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði starfshóp sem falið var að móta stefnu um hvernig efla megi umgjörð rafíþrótta hér á landi. Til slíkra teljast meðal annars skipulagðar keppnir í ýmiss konar tölvuleikjum.

Starfshópurinn var skipaður þann 21. desember í fyrra en formaður hópsins er Ólafur Hrafn Steinarsson, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Ásamt honum sátu fulltrúar Ungmennafélags Íslands, Samfés, Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í hóp auk fulltrúa mennta- og menningarmálaráðuneytisins.

Rafíþróttir færast í aukana

Færst hefur í vöxt að tölvuleikir séu spilaðir á sambærilegum forsendum og iðkun íþrótta, þ.e. að þátttakendur keppi sín á milli í liðum, stundi markvissar æfingar og hugi að samspili líkamlegar og andlegrar heilsu til að ná betri árangri.

„Þróun tölvuleikja er geysilega hröð og þátttaka í þeim stór þáttur í afþreyingu fólks á öllum aldri. Ég tel brýnt að við skoðum það umhverfi sem þegar hefur mótast um æfingar og mót í tölvuleikjum og mótum stefnu um næstu skref,“ er haft eftir Lilju í tilkynningunni.

Forvarnir og lýðheilsa

Í vinnu hópsins var lögð áhersla á mikilvægi þess að rafleikir/rafíþróttir sem eru stundaðar í skipulögðu starfi leggi áherslu á forvarnir og lýðheilsu.

Umsagnarfrestur við drögin er til 29. nóvember og verða umsagnir birtar jafnóðum og þær berast en niðurstöður samráðsins verða birtar þegar unnið hefur verið úr þeim ábendingum og athugasemdum sem berast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert