Rafíþróttir vaxa hratt á heimsvísu, en þó hafa einhver landssvæði fengið meiri athygli í rafíþróttum en önnur. Þar sem vöxtur rafíþrótta er hraður eru sífellt fleiri fyrirtæki, mótshaldarar og samtök sem leita til þeirra landsvæða sem hafa fengið minni athygli.
Landsvæðið MENA, sem stendur fyrir Middle East and North Africa eða Mið-Austurlönd og Norður-Afríka, er meðal þeirra landsvæða sem hefur fengið færri tækifæri en önnur á heimsvísu, en virðist það vera að breytast, t.d. er landssvæðið í fyrsta sinn hluti af núverandi tímabil RLCS í leiknum Rocket League.
Fyrirtækin Riot Games og Intel hafa tekið saman höndum til að styrkja rafíþróttasenuna á landsvæðinu MENA. Nýlega lauk mótinu Intel Arabian Cup, eða IAC, sem haldið var á þeirra vegum, en þar var keppt í leiknum League of Legends.
Fyrirtækin stefna að því að styrkja senu landsvæðisins enn meira í framtíðinni, enda gekk IAC mótið vel fyrir sig og margir hæfileikaríkir einstaklingar fengu að láta ljós sitt skína í kringum mótið. Gerir mótið rafíþróttaleikmönnum einnig kleift að fá meira sviðljós en áður.
„Mót einsog IAC gefa rafíþróttaleikmönnum tækifæri til að prófa sig áfram í keppnisumhverfi, og gera okkur kleift að sjá og styrkja hæfileika á landsvæðinu ásamt því að þróa rafíþróttasenuna hér enn frekar,“ er haft eftir Karim Hachani, útgefendastjóra Riot Games á MENA landsvæðinu.
Eitt þúsund lið voru skráð til leiks á þremur tímabilum IAC og voru fjölmargir aðdáendur sem fylgudst með hverju sinni. Er ljóst að samstarf Riot Games og Intel hefur styrkt rafíþróttasenu landsvæðisins, gerir henni kleift að vaxa hraðar og fá athygli á heimsvísu.