Sænska poppstjarnan, Zara Larsson, sem hefur verið spiluð mikið í útvarpi hérlendis græddi eina milljón bandaríkjadala í gegnum tölvuleikinn Roblox.
Roblox er vinsæll tölvuleikur með hundruði milljóna leikmanna og er því tilvalinn til þess að halda rafræna tónleika.
Zara Larsson stóð fyrir „Zara Larsson Dance Party“ sem voru rafrænir tónleikar innanleikjar og hélt hún þá til þess að auglýsa nýju plötuna sína Poster Girl.
Leikmenn sem sátu tónleikana gátu fengið plötuna gjaldfrjálsa á rafrænum grundvelli ásamt öðrum gjöfum innanleikjar. Hinsvegar kom allur peningurinn frá gjaldmiðli innanleikjar sem heitir Robux.
Leikmenn geta notast við Robux til þess að kaupa hluti innanleikjar og var meðal annars hægt að versla Zöru-persónuhermi (e. Zara avatar) fyrir 400 robux, sem gera 4,99 bandaríkjadali eða jafnvel ákveðin dansviðbrögð.
Leikmenn versluðu mikið innanleikjar af slíkum hlutum og græddi poppstjarnan eina milljón bandaríkjadala á þessum tónleikum.
„Ég hugsaði í raun ekki svo mikið út í það. Það var ekki ásetningur tónleikanna, mig langaði bara til þess að tengjast aðdáendunum,“ segir Larsson í samtali við BBC.