Búi Þór Birgisson er tölvuleikjaaðdáandi og hefur spilað tölvuleiki frá því að hann man eftir sér en hannhefur hann látið húðflúra allan vinstri handlegg sinn með tölvuleikjalist ásamt því að vera með húðflúraðan svepp úr tölvuleiknum Super Mario á kálfanum.
Á vinstri handlegg má sjá ýmsar tölvuleikjapersónur frá tölvuleikjafyrirtækinu Nintendo og nefna má Super Mario, Link, Pokémon, Shadow Link, Megaman og fleira.
Búi hafði hugsað um að setja tölvuleikjahúðflúr á sig í um tvö til þrjú ár áður en hann lét vaða á vinstri handlegginn en það var konan hans sem hvatti hann áfram.
„Ég hef alltaf verið tölvuleikjanörd og þetta eru þeir leikir sem ég spilaði helst í gamla daga, þegar ég var frjáls og engir reikningar sem biðu manns,“ segir Búi í samtali við mbl.is.
Ferlið hófst árið 2017 og tók það um 48 klukkustundir að klára en hann fór í sex átta klukkustunda tíma hjá listamanninum Ingólfi P Heimissyni, einnig þekktur sem Ingi á Bleksmiðjunni.
Valdi Búi Inga vegna þess hve góða hluti hann hafði heyrt um hann ásamt því að hafa fengið hjá honum annað tölvuleikjahúðflúr áður, en það er sveppurinn Goomba úr Super Mario sem er á kálfa Búa.
Super Mario 3 var fyrsti tölvuleikurinn sem Búi spilaði og segist hann eiga myndband af sér á spólu þar sem hann er í göngugrind að spila tölvuleikinn.
Hann spilaði Super Mario mikið í „gamla daga“ og á allar gömlu tölvurnar en hann segist ekki spila eins mikið í dag og hann gerði áður.
Í dag spilar hann aðallega tölvuleikinn League of Legends og starfar sem vélfræðingur þar sem hann setur saman og sýður færibönd og önnur tæki sem hönnuð eru fyrir fisk.