Það færist í aukana að efnishöfundar og streymar haldi útsendingar til styrktar góðgerðarmálum. Er það vissulega þróun í jákvæða átt og frábært að sjá efnishöfunda og streyma nýta vettvang sinn til góðs.
Efnishöfundarnir Sunless Khan og Lethamyr eru vinsælir, en báðir gera efni tengt leiknum Rocket League. Þeir héldu góðgerðastreymi nú á dögunum til styrktar TeamSeas sem eru góðgerðasamtök sem hreinsa rusl úr sjónum.
Sunless Khan og Lethamyr fengu til liðs við sig aðra efnishöfunda, lýsendur, leikmenn og þjálfara. Markmiðið var að spila sólarhrings langan leik í Rocket League og fá sem flesta þekkta einstaklinga innan Rocket League senunnar til að taka þátt.
Allir sem tóku þátt skiptust á að spila til að gera efnið sem skemmtilegast fyrir áhorfendur, en margir frægir einstaklingar úr Rocket League senunni tóku þátt.
Sunless Khan hefur áður haldið slíkan viðburð þar sem einnig var leikinn langur leikur í Rocket League til styrktar góðgerðarmálum.
Markmiðinu var náð og var öllum leiknum streymt, sem endaði í sólahrings löngu streymi. Samtals söfnuðust rúmlega 5 milljónir íslenskra króna sem allar runnu til góðgerðarsamtaka TeamSeas. Hægt er að horfa á upptöku af útsendingunni á Twitch rás Sunless Khan.
Það er alltaf jákvætt að sjá þegar viðburðir eru haldnir til styrktar góðgerðarmálum, og frábært að sjá stærri efnishöfunda nýta vettvang sinn til þess.