Evrópukeppni DreamHack Open í Counter-Strike:Global Offensive hófst fyrr í vikunni, en um er að ræða stutt mót sem spilast allt á innan við viku. Tvö lið eru nú komin í undanúrslit og kemur í ljós í kvöld hvaða liðum þau mæta.
Liðunum átta sem tóku þátt var skipt upp í tvo riðla, en riðlakeppnin var heldur óhefðbundin þar sem ekki voru spilaðar umferðir líkt og vaninn er í mörgum leikjum. Riðlarnir spiluðu í lítilli útsláttarkeppni milli sín þar sem allar viðureignir voru best-af-3 og efstu tvö lið hvors riðils fara áfram í undanúrslit.
Tvö lið hafa unnið alla sína leiki, en það eru liðin Fnatic og BIG. Tvær viðureignir verða spilaðar í dag og í kvöld og munu þær viðureignir ákvarða hvaða lið mæta Fnatic og BIG í undanúrslitum.
MAD Lions og MOUZ mætast í dag og mun sigurvegari viðureignarinnar mæta Fnatic á morgun, svo mætast ENCE og forZe í kvöld og sigurvegari þeirrar viðureignar mætir BIG á morgun. Úrslitaviðureignin verður leikin á sunnudaginn.