Tölvuleikjastreymirinn Asmongold tók viðtal við konu sem selur erótík fyrir gullpeninga í tölvuleiknum World of Warcraft.
Umræddur leikmaður býður upp á erótíska hlutverkaleiki í gegnum tölvuleikinn World of Warcraft í skiptum fyrir gullpeninga sem notast er við innanleikjar. Vakti það áhuga Asmongold, enda er það fátíð nálgun á tölvuleikjaspilun.
Asmongold las sér til um þjónustuna sem er í boði í beinni á streyminu sínu og ákvað að því loknu að hafa samband og bauð henni „Soniu Lightheart“ í viðtal á samskiptaforritinu Discord, sem hún þáði.
Fyrstu spurningarnar sem Asmongold lagði fyrir hana voru hversu gömul hún væri og svo hvað gengi á á bak við tjöldin.
Sonia kvaðst vera 24 ára gömul og nefndi að hún væri mjög nýlega byrjuð að stunda ERP (e. erotic roleplay) eða erótíska hlutverkaleiki.
Hún sagðist þó hafa spilað í þó nokkurn tíma en þá hafa verið að leika sér og gera „heimskulega hluti“ á borð við það að spjalla við ókunnuga og hlaupa um innanleikjar. En nú sé hún að stunda hlutverkaleiki með félaginu (e. guild) sínu og fái þar að „æfa sig“.
Í framhaldi af því spurði Asmongold spurningarinnar sem lá á vörum áhorfenda: hversu mikið gull þénar hún?
Sagði hún það fara eftir ýmsu en það næmi tugum og hundruðum þúsunda gullpeninga. Bæðu leikmenn um „skrýtna“ eða „óvanalega“ hluti rukkaði hún meira.
Asmongold lýsti þessu sem „onlyfans fyrir WoW“ en Sonia lýsir þessu líferni nánar í myndbandinu hér að neðan.