„Margt sem hefði mátt fara betur“

Guðjón „Jappi“ Matthíasson er leikmaður KR í Turf deildinni í …
Guðjón „Jappi“ Matthíasson er leikmaður KR í Turf deildinni í Rocket League. Grafík/Turf deildin

Úrslitakeppni Turf deildarinnar hefst á fimmtudaginn. Guðjón „Jappi“ Matthíasson er leikmaður KR í Turf deildinni í Rocket League svaraði nokkrum spurningum varðandi deildar- og úrslitakeppnina.

Jappi mætir Midnight Bulls ásamt liði sínu í fyrsta leik fjórðungsúrslita, en bæði lið voru hnífjöfn í deildarkeppninni. Midnight Bulls lauk leik í fjórða sæti með 16 stig, en KR í fimmta sæti einnig með 16 stig. Það voru aðeins sigurleikir innbyrðis viðureigna liðanna sem skyldu þau að.

Jappi stóð sig vel í deildarkeppninni en hann var með samtalst 37 mörk, 25 stoðsendingar og 50 vörð skot, ásamt því að hann var með 27% skotnýtingu.

Náðu ekki markmiðunum í deildarkeppninni

„Mér fannst okkur ganga ágætlega á köflum en margt sem hefði mátt fara betur. Margar viðureignir sem við hefðum átt að vinna sem við annaðhvort töpuðum naumlega eða komum ekki tilbúnir í,“ segir Jappi aðspurður um gengi liðsins á tímabilinu.

Hann segir liðið ekki hafa náð markmiðum sínum á tímabilinu, og bendir á að þeir hefðu mátt eyða meiri tíma í æfingar til að geta spilað betur. Þeir ætli hinsvegar að spýta í lófana núna fyrir úrslitakeppnina og taka æfingaleiki. 

„Þór Akureyri áttu mjög góðan kafla sem gaf þeim þriðja sæti í deildarkeppninni. Annars fannst mér öll lið spila vel, en mér fannst við í KR spila undir getu og hefðum átt að lenda ofar en í fimmta sæti í deildarkeppninni,“ segir Jappi aðspurður að því hvort að eitthvað lið hafi komið honum á óvart í deildarkeppninni. 

Skemmtilegast að mæta LAVA esports

„Mér fannst skemmtilegast að mæta LAVA esports. Þeir eru bestir og maður lærir ótrúlega mikið á því að spila við þá. Hef sjaldan skemmt mér jafn vel og í seinustu viðureign okkar gegn þeim,“ segir Jappi er hann vísar í viðureign KR við LAVA esports sem lauk með 3-2 sigri LAVA, og var jafnframt jafnasta viðureign LAVA á tímabilinu.

Ef að KR vinnur fyrstu viðureign sína á móti Midnight Bulls mæta þeir LAVA esports í undanúrslitum á sunnudaginn. „Við munum ekki gefa neitt eftir á móti LAVA,“ segir Jappi þegar undanúrslitin eru rædd.

Að lokum spáir Jappi fyrir því að LAVA esports verði Íslandsmeistarar, og telur hann Rafík enda í öðru sæti og KR í því þriðja. Það verður spennandi að fylgjast með gengi Jappa og KR í úrslitakeppninni. Allar viðureignir úrslitakeppni Turf deildarinnar verða sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert