Síðustu umferð Turf deildarinnar í Rocket League lauk í gær og er nú ljóst hvaða lið mætast í úrslitakeppninni sem hefst næsta fimmtudag. LAVA esports tryggðu sér deildarmeistaratitilinn áður en deildarkeppninni lauk, en liðið tapaði ekki viðureign í deildarkeppninni.
Fjórðungsúrslitin fara fram næsta fimmtudag og hefst fyrsta viðureign klukkan 19:10. Undanúrslit og úrslit verða spiluð á sunnudaginn næsta og hefst fyrsta viðureign klukkan 19:10 Allar viðureignir í fjórðungs- og undanúrslitum verða best-af-sjö, en úrslitaviðureignin verður best-af-níu. Keppt verður í einfaldri útsláttarkeppni, sem þýðir að tapi lið viðureign er það úr leik.
Efstu tvö lið deildarinnar, LAVA esports og Rafík, komast sjálfkrafa í undanúrslit vegna góðs gengis, en liðin í fjórða til sjötta sæti mæta til leiks í fjórðungsúrslitum til að keppast um sæti í undanúrslitum.
Liðin Midnight Bulls og KR mætast í fyrri viðureign fjórðungsúrslita á fimmtudaginn, en Þór Akureyri og Somnio mætast í þeirri síðari. Sigurvegari í fyrri viðureign mætir svo LAVA esports á sunnudaginn næstkomandi, og sigurvegari í seinni viðureign mætir Rafík.
Besta lið deildarkeppninnar var LAVA esports, en liðið spilaði mjög vel alla deildarkeppnina. Leikmenn liðsins voru Íslandsmeistarar á fyrsta og öðru tímabili úrvalsdeildar RLÍS og komu yfirburðir LAVA esports aðdáendum deildarinnar ekki á óvart. Verður fróðlegt að fylgjast með hvort að LAVA esports muni landa Íslandsmeistaratitlinum á þessu tímabili, og fara þannig ósigraðir í gegnum heilt tímabil.
Ef líta má til gengi liðanna í deildarkeppninni má búast við að Þór Akureyri fari auðveldlega áfram í undanúrslit og muni mæta Rafík. Þór Akureyri mæta Somnio í fjórðungsúrslitum, en Somnio spiluðu ekki vel í deildarkeppninni og þurfa virkilega að gefa í vilji þeir komast í undanúrslit.
Erfitt er að spá um hvernig viðureign Midnight Bulls og KR mun fara, þar sem liðin voru hnífjöfn í deildarkeppninni. Liðin mættust tvisvar í deildarkeppni og sigruðu bæði eina viðureign. Það verður forvitnilegt að sjá hvort bæði lið mæti til leiks eða hvort viðureign þeirra í fjórðungsúrslitum verði einhliða.
Liðin Pandabois og oCtai Esports náðu ekki að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni, enda luku liðin keppni í síðustu tveimur sætum deildarinnar. OCtai Esports enduðu í áttunda og síðasta sæti og falla þeir niður í fyrstu deild.
Pandabois lentu í sjöunda eða næst síðasta sæti og munu því spila umspilsleik. Í þeim leik munu þeir leika um sætið í Turf deildinni, og mæta þar því liði sem lendir í öðru sæti í fyrstu deildinni.
Allar viðureignir úrslitakeppni Turf deildarinnar verða sýndar í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport. Hægt er að finna upplýsingar um viðureignir og úrslit á Toornament síðu Turf deildarinnar.