Engir fordómar vegna kyns

Eva Margrét Guðnadóttir „EvaSniper69“ með hvolp í fanginu.
Eva Margrét Guðnadóttir „EvaSniper69“ með hvolp í fanginu. Ljósmynd/Aðsend

Eva Margrét Guðnadóttir, einnig þekkt sem EvaSniper69, er 27 ára gamall Warzone leikmaður og jafnframt hluti af fjóreykinu Babe Patrol sem streymir öll miðvikudagskvöld á GameTíví.

Vinnur að mastersgráðu og þróun streymis

Eva spilar þegar hún getur og hefur tíma til þess og henta kvöldin best í það. Spilar hún þá tölvuleikina Warzone eða Vanguard sem eru fyrstu persónu skotleikir í tölvuleikjaseríunni Call of Duty.

Hún stefnir á að útskrifast eftir áramót með mastersgráðu í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði en samhliða því er hún á fullu að þróa streymið með stelpunum í Babe Patrol en þær hófu streymisferil sinn um vorið árið 2020.

Spilað með fjölskyldunni

„Ég man ennþá eftir því þegar pabbi kom heim með nýja PlayStation 2 tölvu handa mér og systur minni. Við eyddum heldur mörgum klukkutímum fyrir framan sjónvarpið að spila saman,“ segir Eva í samtali við mbl.is.

Hefur hún spilað tölvuleiki frá því hún man eftir sér og telur sinn fyrsta leik hafa verið Spyro, en þar spila leikmenn fjólubláan dreka að nafni Spyro og fylgja honum í gegnum ýmis ævintýri.

„Ég spilaði hann mikið með systur minni - og stundum mömmu. Svo spilaði ég mikið klassíska Disney leiki eins og Tarzan og Toy Story.“

Viðhorfin breyst til bóta

Eva tók sér nokkurra ára spilapásu en fyrir um tveimur árum síðan hóf hún spilun á ný og segist hún spila nánast daglega síðan þá.

„Allar rafíþróttakeppnirnar og íslensk streymi hafa verið að aukast mikið síðastliðið ár og mánuði sem er frábært,“ segir Eva og telur að viðhorf tölvuleiki hafi breyst til hins betra - og þá sérstaklega eftir að íþróttafélögin fóru að sýna rafíþróttum áhuga.

Hún hefur ekki verið að keppa sjálf en sem fyrr segir er hún virk í tölvuleikjasamfélaginu og streymir vikulega með stelpunum í Babe Patrol en hún segist vera aðallega að þessu til að skemmta sér. Hún hefur það þó að markmiði að verða betri í þeim leikjum sem hún er að spila.

Hvorki fordómar né leiðindi

„Þrátt fyrir að almennt sé talað um að stelpur upplifi mikla fordóma og leiðindi innan tölvuleikjasamfélagsins þá er mín reynsla hér á landi ekki sú. Íslenska tölvuleikjasamfélagið eins og ég hef kynnst því er frábært,“ segir Eva og getu hún geta talað fyrir hönd allra stelpnanna í Babe Patrol þegar hún segir að það hafi allir tekið vel á móti þeim og stutt þær í öllu sem þær hafa gert jafnt sem hvatt þær áfram.

Evu finnst að fleiri ættu að gefa tölvuleikjum séns og láta vaða að prófa.

Snýst um að skemmta sér

„Margir halda að þeir þurfi að hafa spilað tölvuleiki í mörg ár eða vera sérstaklega góðir í þeim til að vera í þessu, en það er ekki rétt.“

„Sem dæmi erum við stelpurnar ekkert sérstaklega góðar í þessum leikjum sem við spilum en það er ekki það sem gerir þig að tölvuleikjaspilara, maður þarf bara að hafa gaman að þessu.“

Hægt er að fylgjast með Evu og hinum stelpunum úr Babe Patrol klukkan 21:00 í beinni útsendingu öll miðvikudagskvöld á Twitch rás GameTíví eða á Stöð 2 Esports.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert