Andri „Bafga“ Sigfússon spilar með liði Somnio í Turf-deildinni í Rocket League. Somnio er eitt sex liða sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni deildarinnar sem hefst á fimmtudaginn. Bafga ræddi gengi liðsins við mbl.is.
Lið Somnio átti í erfiðleikum með að finna sig í deildarkeppninni og sigruðu í rauninni aðeins á móti þeim tveimur liðum sem enduðu í neðstu tvem sætum deildarinnar. Somnio missti út varamann þegar nokkrar umferðir voru eftir af tímabilinu og gerði það þeim ekki auðvelt fyrir.
Somnio mætir Þór Akureyri á fimmtudaginn í fjórðungsúrslitum og er ljóst að sá leikur verður erfiður fyrir Somnio. Þór Akureyri sigraði báðar viðureignir liðanna í deildarkeppninni með yfirburðum.
„Við vorum frekar slappir á tímabilinu, og hefðum við getað spilað miklu betur almennt. Við náðum því miður ekki markmiðum okkar á tímabilinu“ segir Bafga svekktur með gengi liðsins í deildarkeppninni.
Bafga er fyrirliði Somnio og segir tölfræði hans mikið um gengi liðsins á tímabilinu, en hann var með 22 mörk, 17 stoðsendingar, 62 vörð skot og 26% skotnýtingu.
„Þór Akureyri komu mér á óvart í deildarkeppninni, en mér fannst skemmtilegast að mæta Rafík,“ segir Bafga með glöðu geði.
„Ég ætla að nýta mér úrslitakeppnina til að greina hvað það er sem er að fara úrskeiðis hjá okkur í Somnio.
Það er ekki ákveðið hvaða breytingar verða fyrir næsta tímabil, en ég ætla að halda opnu plássi fyrir nýjan varamann, og/eða nýjan byrjunarliðsmann,“ segir Bafga aðspurður um framhald liðisins eftir úrslitakeppnina.
Bafga spáir LAVA esports Íslandsmeistaratitlinum, Rafík öðru sætinu og KR því þriðja. Það verður forvitnilegt að fylgjast með hvort að lið Somnio muni loksins finna kraftinn til að vinna viðureign á móti Þór Akureyri í úrslitakeppninni Turf-deildarinnar. Leikur Somnio og Þór Akureyri hefst á fimmtudaginn klukkan 19:50 og verður sýndur á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.