Mótið Almenni í Dota 2 fór fram þarsíðustu helgi, en bræður voru í sigurliði mótsins. Því ber að fagna að Dota 2 senan á Íslandi er að lifna við eftir dágóðan dvala.
Helge Snorri Seljeseth, betur þekktur sem Snorri, tók þátt í mótinu og gerði í kjölfarið myndband með helstu tilþrifum og augnablikum. Snorri hefur mikla tengingu í leikinn Dota, en bróðir hans er Jon Ingvi Seljeseth, betur þekktur sem Ingmundur, sem hefur verið þekkt nafn í Dota senunni á Íslandi í mörg ár.
„Ég man að bróðir minn spilaði Dota 1 snemma árið 2005 og ég spilaði eitthvað smá með honum þá. Ég byrjaði þó ekki að spila leikinn af alvöru fyrr en árið 2011 þegar Dota 2 kom út. Bróðir minn er líklegast einn af þeim sem hefur mest keppt í Dota hérna á Íslandi, bæði á íslenskum og erlendum mótum.
Þetta er þannig séð fyrsta mótið sem ég keppi í í leiknum, og er það bróðir mínum að kenna vegna þess að hann plataði mig til að vera með sér í liðinu Get Me Out,“ segir Snorri, en liðið sem þeir bræður voru í á mótinu Almenni í Dota 2 vann efri deild mótsins.
Eins og áður segir gerði Snorri skemmtilegt myndband með öllum helstu tilþrifum og augnablikum úr útsendingu mótsins Almenni í Dota 2.
„Ég hef mikið verið að fylgjast með Dota 2 senunni hérna á Íslandi. Ég gerði myndbandið aðallega til að vekja upp meiri áhuga á fólki til að taka þátt og styrkja Dota samfélagið á Íslandi,“ segir Snorri aðspurður um myndbandið.
Hann segist hafa fengið innblástur frá þeim Bergi, Viktori, Aleksander og Vigfúsi, sem skipa mótastjórn Almenna í Dota 2, þegar hann gerði myndbandið og bendir á að þeir eru stærsta ástæðan fyrir því að Dota 2 senan er að lifna við aftur hér á landi.