Þór Akureyri er eitt sex liða sem mætir til leiks í úrslitakeppni Turf-deildarinnar í Rocket League sem hefst næsta fimmtudag. Kristinn „Kartofla“ Halldórsson, leikmaður Þór Akureyri, ræddi gengi liðsins ásamt fleiru við mbl.is.
Þór Akureyri luku deildarkeppni í þriðja sæti, og mæta því Somnio sem lentu í sjötta sæti. Liðin leika í annarri viðureign fjórðungsúrslita sem fram fer næsta fimmtudag. Þór Akureyri sigraði báðar viðureignir liðanna í deildarkeppninni með yfirburðum og er þeim því spáð sigri á móti Somnio í fjórðungsúrslitum.
„Mér fannst liðinu ganga vel á tímabilinu, sumt gekk betur en ég bjóst við og sumt verr. Ég myndi segja að við náðum markmiðum okkar í deildarkeppninni, en við enduðum í þriðja sæti og sigruðum viðureignir á móti góðum liðum. Okkur langaði þó að enda ofar í deildinni,“ segir Kartofla og bætir við að hann vilji ekki ræða hvernig liðið mun undirbúa sig undir úrslitakeppnina.
„Það var ekkert lið sem kom okkur á óvart í deildarkeppninni. Mér fannst skemmtilegast að mæta Rafík í deildarkeppninni, en báðar viðureignir okkar á móti þeim voru mjög spennandi. Ég er sjálfur búinn að horfa oft á þá leiki aftur,“ segir Kartofla.
Aðspurður að því hverjar væntingarnar hans séu fyrir næsta tímabil segist hann ekki hafa hugsað svo langt, enda sé einbeitingin öll á úrslitakeppninni eins og er.
„Ég er mjög stoltur af liðinu mínu,“ segir Kartofla í lokin, en hann spáir þeim öðru sæti í úrslitakeppninni. Hann spáir LAVA esports Íslandsmeistaratitlinum og Rafík þriðja sætinu. Kartofla mætir á völlinn á fimmtudaginn ásamt liði sínu, Þór Akureyri, þar sem þeir mæta Somnio í fjórðungsúrslitum Turf-deildarinnar.
Fylgstu með Kartoflu og Þór Akureyri í fjórðungsúrslitum Turf-deildarinnar á fimmtudagskvöldið í beinni útsendingu á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.