Liðin Ármann og Fylkir mættust í fyrsta leik sjöttu umferð Vodafonedeildarinnar í Counter-Strike:Global Offensive í gærkvöldi. Fyrir leik var Ármann í fimmta sæti deildarinnar og Fylkir í því sjöunda.
Ármann tefldi fram leikmönnunum HUNDZa, varg, ofvirk, kruzer og 7homsen í leik gærkvöldsins. Leikmannahópur Fylkis var skipaður þeim Jolla, Pat, Andra2k, Vikka og KDOT. Fylkir gerði leikmannabreytingu síðustu helgi þar sem leikmaðurinn Vikki kom inn í stað Zerq.
Leikurinn hófst klukkan 20:30 og varð kortið Nuke fyrir valinu. Ármann byrjuðu leikinn betur og komu stöðunni fljótt í 5-0. Fylkir hrukku þá í gang og unnu sjö lotur í röð. Staðan í hálfleik var 8-7 Fylki í hag.
Leit út fyrir að Fylkir ætluðu að halda góðu gengi áfram og sigruðu þeir fyrstu þrjár lotur síðari hálfleiks. Ármann stigu þá á bensíngjöfina og sigruðu sjö lotur í röð.
Staðan var þá orðin 14-11 og bæði lið til alls líkleg. Fylkir sigruðu þá tvær lotur í röð og staðan orðin 14-13. Eftir það skipust liðin á því að sigra lotur og lauk leiknum með 16-14 sigri Ármanns.
Það var því sterkur seinni hálfleikur sem skilaði Ármanni sigri í þessum leik, en bæði lið spiluðu vel á köflum. Mikilvægasti maður leiksins var HUNDZi, leikmaður Ármanns, en hann skilaði góðri tölfræði.
Ármann fóru upp um sæti eftir sigurinn á Fylki, og sitja þeir nú í fjórða sæti deildarinnar með sex stig. Fylkir standa í stað og eru enn í sjöunda sæti með tvö stig.
Síðari hluti sjöttu umferðar Vodafonedeildarinnar verður leikinn á föstudaginn en þá mætast SAGA og Kórdrengir, og Dusty og Þór. Hægt er að sjá stöðu deildar, úrslit og næstu leiki á Challengermode síðu mótsins.