Stelpurnar Móna Lind Kristinsdóttir og Valgerður Kjartansdóttir, einnig þekktar sem DiamondMynXx og VallaPjalla streyma á GameTíví í þættinum Queens sem fer fram öll þriðjudagskvöld en þar spila þær ýmsa leiki og fá til sín allskonar gesti.
Þær byrjuðu báðar að streyma fyrir um ári síðan en kynntust fyrir nokkrum árum síðan í „vopnaleitinni“.
Móna og Valgerður unnu saman fyrir fimm árum síðan en þá störfuðu þær við öryggisleit á flugvelli Keflavíkur og urðu góðar vinkonur út frá því.
„Ég er til dæmis alveg súper extrovert og Valgerður er alveg súper introvert. Svo ég ættleiddi hana og hún ættleiddi mig,“ segir Móna í samtali við mbl.is.
Þær hafa báðar breitt áhugasvið þegar kemur að tölvuleikjum og spila leiki á borð við Among Us, Apex Legends, Warzone, Sims, World of Warcraft og lengi mætti áfram telja en þær spila helst PC-leiki.
Valgerður man fyrst eftir sér að spila Super Mario í Nintendo 64-tölvu en var hún þá mjög ung að aldri, eins fékk hún að spila í tölvuleik um Löru Croft gamalli tölvu hjá ömmu sinni og afa.
Móna var einnig ung þegar hún byrjaði að spila en minnist hún þess þegar hún spilaði með vinkonu sinni sem bjó í blokk á móti Mónu. Hittust þær reglulega og spiluðu tölvuleikina Commander Keen og Sims saman en þær deildu Sims aukapökkum og þótti mikið sport að safna Sims-leikjum.
Eins fékk Móna að spila ýmsa leiki sem voru hannaðir fyrir eldri leikmenn en hana sjálfa en hún fékk að spila slíka tölvuleiki með bróðir sínum.
„Ég lærði náttúrulega geggjaða ensku á þessu, varð reiprennandi í ensku bara sex ára,“ segir Móna.
Valgerður er enn að vinna við vopnaleitina og eru þær báðar önnum kafnar við verkefni sem fylgja þáttunum þeirra á GameTíví, þær leita uppi áhugaverða leiki til þess að spila og eru einnig að finna gesti fyrir streymin sín.
Móna vinnur einnig að verkefnum tengdum öðrum þáttum á GameTíví og er hún þá meðal annars að klippa og sinna eftirvinnslu þátta og eins sinnir hún móðurhlutverkinu af kappi.
Það er að verða komið ár síðan Móna hóf streymisferil sinn á Twitch og ætlar hún að fagna því með afmælisstreymi á föstudaginn. Þar mun hún spila á tíma en bætist áskrifandi við þá lengist spilatíminn hennar.
„Mig langaði svo að vinirnir myndu hópast og spila saman, síðan einhvern veginn er ég komin hingað. Maður bjóst ekkert við þessu,“ segir Valgerður en þær vinkonur eru báðar hissa yfir því hversu langt þær hafa komist og það að vinir þeirra horfi á þær í sjónvarpinu.
Þetta byrjaði allt með því að Valgerður og Móna voru virkar á spjallinu á streymum GameTívís að sögn Valgerðar.
GameTíví höfðu verið að fylgjast með streyminu hennar Valgerðar og séð hvað hún væri að gera, þeim leist greinilega vel á því að stuttu seinna fékk hún skilaboð þar sem henni var boðið að spila með þeim tölvuleikinn Among Us og spilaði hún með þeim í tvö skipti og eitt skiptið í þættinum Rauðvín og Klakar.
Upp úr því var Valgerði boðið ásamt Mónu að hafa „yfirtöku“ á GameTíví en það er þegar upprennandi streymarar fá tækifæri til þess að koma sér á framfæri og taka yfir þætti í GameTíví.
„Það er gaman að fá að deila þessu með bestu vinkonu sinni,“ segir Valgerður og tekur Móna vel undir það.
Stelpurnar finna báðar ótrúlega mikinn félagsskap í þessum streymisgeira og hafa kynnst mikið af fólki í gegnum hann, bæði erlendis sem og hérlendis. Jafnframt telja þær þetta vera eins og að hanga með vinum sínum.
Þær höfðu samt hvorugar neinar sérstakar væntingar er þær hófu þennan streymisferil sinn og vildu bara fá að njóta sín og spila með vinum sínum.
„Það er alltaf svo gaman, við höfum alltaf hvora aðra og ef það er eitthvað þá bara pikkar hún í mig eða ég í hana, við drögum fram það besta og versta í hvorri annarri.“
„Markmiðið var bara að ef einhver nennir að horfa á ruglið í mér og ég fæ einhvern til að brosa, þá er það bara frábært. Og svo bara vindur þetta upp á sig!“ segir Móna.
„Hver hleypti mér í sjónvarpið? Afsakið.“
„Ég er alltaf hlandblaut úr hlátri,“ segir Móna en þættirnir þeirra Queens eru oft mjög skrautlegir og má nefna að Valgerður fékk í eitt skiptið drauga-chili duft í augað en drauga-chili er talinn ein sterkasta pipar-tegund í heimi.
Eins hefur verið hringt í hana og gert símaat í beinu streymi en þættirnir þeirra geta verið uppákomusamir og reyna þær að halda þeim fjölbreyttum.
„Amma og afi eru sterkustu stuðningsaðilar mínir, þau horfa hvert einasta kvöld og eru í VölluPjöllu-bol,“ segir Valgerður og eins fær hún mikinn stuðning frá systrum sínum og jafnvel frá fólki úr vinnunni.
„Vinir mínir sem spila ekki einusinni tölvuleiki eru að horfa á,“ segir Valgerður en hafa þessi streymi hjálpað Valgerði mikið að komast út úr þægindarammanum og unnið bug á kvíða og félagskvíðanum hennar og kom það fólkinu hennar mikið á óvart.
„Stuðningurinn frá mínu fólki er ekki í áhorfi og ég ætlast ekkert til þess af öllum fjölskyldumeðlimum mínum að hvorki vita hvað ég er að gera, skilja það eða nenna að horfa á það,“ segir Móna.
Stuðningur Mónu felst meira í því að fólkið hennar gefur henni svigrúm til þess að sinna sínum störfum og hefur það þá meðal annars hjálpað henni með umönnun dóttur hennar á meðan streymum stendur eða þegar hún sinnir vinnu sem tengist streyminu.
„Mér finnst ótrúlega dýrmætt að fólkið í kringum mig geti veitt mér þann stuðning.“
Bróðir Mónu hefur þó verið mikill stuðningur fyrir hana frá unga aldri hvað varðar tölvuleikjaspilun og varðandi streymin en þegar frá því að hún byrjaði að spila þá passaði hann alltaf upp á að „litla systir væri með besta „settöppið“ og nefna má að hann byggði fyrstu tölvu Mónu.
„Ef einhver er að fara að gera þetta, láttu þér vera drullusama um það ef einhverjum finnst þú vera asnalegur. Það skiptir engu máli,“ segir Móna og hvetur upprennandi streymara til þess að vera bara þeir sjálfir.
„Maður finnur ekkert nema bara ást, hver segir að internet-vinir séu ekki vinir,“ segja þær í kór.