Úrslitakeppni Turf-deildarinnar í Rocket League hefst í kvöld. Bárður Örn „Bobbi“ Birkisson er leikmaður Midnight Bulls en hann svaraði nokkrum spurningum í samtali við mbl.is. Midnight Bulls er eitt sex liða sem spila í úrslitakeppninni, en þeir mæta KR í fjórðungsúrslitum í kvöld.
Midnight Bulls mæta sterku liði KR í kvöld í fyrstu viðureign fjórðungsúrslita Turf-deildarinnar. Liðin voru jöfn stigum eftir deildarkeppnina en Midnight Bulls lentu einu sæti ofar en KR vegna gengi þeirra í innbyrðis viðureignum liðanna.
Bobbi hefur átt gott tímabil og hefur hann skorað 38 mörk, varið 55 skot, gefið 40 stoðsendingar og er með 26% skotnýtingu.
„Mér fannst við standa okkur bara nokkuð vel. Það voru sumar viðureignir sem við hefðum getað spilað aðeins betur, en líka margar viðureignir sem við spiluðum mjög vel. Við stóðum okkur eiginlega eins vel og ég bjóst við,“ segir Bobbi um deildarkeppnina.
„Markmiðið okkar fyrir deildina var að ná þriðja sætinu, en við erum að sjálfsögðu ekkertósáttir með fjórða sætið þar sem við erum fyrir ofan KR,“ bætir Bobbi við og bendir á að KR hafi verið í öðru sæti eftir deildarkeppnina á síðasta tímabili.
Bobbi segir að liðið hafi undirbúið sig með því að spila mikið saman, bæði í keppnissenu leiksins og æfingaleikjum.
„Þór Akureyri komu mér mjög á óvart í deildarkeppnninni. Þrátt fyrir að þeir hafi náð öðru sæti í úrslitakeppninni í fyrra þá bjóst ég ekki við að þeir myndu taka viðureignir af bæði KR og Rafík.
Mér fannst skemmtilegast að mæta KR. Þeir eru mjög sterkt lið og því alltaf erfitt að keppa á móti þeim. Mér fannst mjög skemmtileg fyrsta viðureignin okkar á móti þeim sem var jafnframt fyrsta viðureignin okkar í Turf-deildinni, þar sem við komum á óvart og sigruðum þá 3-0,“ segir Bobbi.
Bobbi spáir LAVA esports Íslandsmeistaratitlinum þar sem þeir hafa sigrað allar viðureignir sínar til þessa. Hann spáir Rafík öðru sætinu, og segir svo að hann hafi fulla trú á að lið hans, Midnight Bulls, muni ná þriðja sætinu þar sem þeir eiga góðan möguleika á að sigra bæði KR og Rafík spili liðið vel.
Engar breytingar hafa verið ákveðnar á liðinu fyrir næsta tímabil, en þeir stefna á að vera meðal þriggja bestu liðanna á næsta tímabili.
Bobbi og Midnight Bulls mæta KR í kvöld klukkan 19:10 í fyrstu viðureign fjórðungsúrslita Turf-deildarinnar í Rocket League. Fylgstu með beinni útsendingu frá leikjunum í kvöld á Twitch rás RLÍS og Stöð2 esport.